Þann 9. nóvember eru 30 ár liðin frá falli Berlínarmúrsins sem skipti Berlínarborg í tvö ríki, Austur- og Vestur-Þýskaland. Eftir lok síðari heimsstyrjaldar skiptu Bandamenn (Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Sovétríkin) Þýskalandi á milli sín. Í vesturhlutanum var hefðbundnu lýðræði komið á en austurhlutinn komst á vald rússa þar sem kommúnisminn var hafður að leiðarljósi. Þann 7. október 1949 var Austur-Þýskaland formlega stofnað.
Þróun efnahagsins austan járntjaldsins var ólík þeim vestri í kjölfar stríðsins og á meðan almenn velmegun varð meiri á vesturlöndum versnaði ástandið stöðugt í austri. Þetta sáu íbúar Austur-Þýskalands sem gátu ferðast yfir til Vestur-Þýskalands að vild en margir fluttust þangað yfir og settust að í vesturhlutanum. Þegar rúmlega þrjár miljónir manna höfðu yfirgefið Austur-Þýskaland var yfirvöldum ljóst að við svo búið mátti ekki standa og þann 13. ágúst hófust framkvæmdir öllum að óvörum sem að lokum varð að Berlínarmúrnum. Yfirvöld Austur-Þýskalands kölluðu hann varnarmúr gegn fasistaöflum en í raun var hann reistur til að loka íbúana inni í landinu. Um hundrað metrum frá múrnum var reist gaddavírsgirðing og var svæðið á milli múrsins og hennar kallað dauðasvæði. Það var varið af vegatálmum, nagladýnum, hundum og öryggissveitum sem fengu tilmæli um að skjóta hvern þann sem reyndi að komast yfir. Talið er að um 138 manns hafi látið lífið við tilraunir til að flýja landið.
Aðalhönnuður Berlínarmúrsins var Erich Honecker sem síðar varð aðalritari Austur-þýska kommúnistaflokksins og þar með leiðtogi landsins.
Berlínarmúrinn skildi að tvo menningarheima. Öðru megin ríkti lýðveldi og frjálshyggja, hinu megin lögregluríki og bæling í nafni kommúnisma.
Með nýjum leiðtoga Sovétríkjanna, Michael Gorbachov, sem tók til valda árið 1989 voru nýjar áherslur lagðar í stjórnarháttum þar eystra. Ritskoðun var afnumin, gegnsæi var aukið og fólk gat ferðast milli ríkja. Það var hins vegar ekki á dagskrá í hinu Þýska alþýðulýðveldi Honeckers og hélt hann áfram þeirri bælingu og kúgun sem verið hafði. Upp úr því hófust öflug mótmæli í Leibzig og á Alexanderplatz og skömmu síðar steig Honecker til hliðar sem aðalritari og Egon Kreinz tók við. Eitt af því fyrsta sem hann gerði í því embætti var að aflétta farbanninu yfir landamærin. Það var tilkynnt á blaðamannafundi þann 9. nóvember en fyrir misskilning tóku hin nýju lög gildi degi áður en áætlað var. Austur-þýsku landamæraverðirnir réðu ekki við neitt, heldur horfðu ráðþrota á fólksfjöldann streyma yfir landamærin. Berlínarmúrinn var fallinn.