Jólin nálgast óðfluga og í tilefni þess býður Hinrik Örn Lárusson matreiðslumaður og landsliðskokkur til hátíðarveislu á heimili sitt þar sem hann eldar og framreiðir jólamatinn sem fjölskyldan ætlar að snæða á aðfangadagskvöld. Sjöfn fær innsýn í eldamennskuna hjá Hinrik og hann kennir Sjöfn helstu trixin þegar matreiða á villibráð eins og hreindýr og önd og gefur góð ráð. Hinrik byrjaði snemma að taka þátt í matreiðslunni fyrir jólin og yfirtók eldhúsið mjög fljótt enda hefur hann ástríðu fyrir því að elda og framreiða kræsingar frá því að hann man eftir sér.
Hinrik sker niður hreindýrafillet að sinni alkunnu snilld./Ljósmyndir Ernir.
„Ég var ungur þegar ég byrjaði að hjálpa til og eiginlega bara síðan ég man eftir mér hef ég verið fyrir í eldhúsinu. Ég hef verið svona um 17 ára þegar ég tók að mér jólamatinn í fyrsta skipti, í minningunni var það alveg greinilegt að ég væri að taka hann í fyrsta skipti sjálfur,“segir Hinrik og veit fátt skemmtilegra en að matreiða jólamatinn fyrir fjölskyldu sína.
Elva Hrund Ágústsdóttir stílisti og blaðamaður og Hrafnhildur Þorleifsdóttir blómaskreytir og eigandi Blómagallerís við Hagamel dekka jólahátíðarborðið fyrir Hinrik og konu hans Ólafar Eir Jónsdóttur á heimili þeirra fyrir hátíðarveisluna. Elva og Hrafnhildur eru báðar fagurkerar fram í fingurgóma og hafa listrænt auga þegar kemur að því að raða upp hlutum og formum og láta ólíka litatóna flæða saman.
„Þau hjá Bakó Ísberg voru svo vinsamleg að bjóða okkur að koma og velja matarstell fyrir þáttinn og valdi ég þar hvíta dropalaga diska og skálar til að brjótast aðeins út úr norminu. Ásamt litlum hliðarskálum sem henta sérlega vel undir salt fyrir hvern og einn matargest, eða jafnvel undir litla gyllta konfektmola eins og við sjáum í þessu tilfelli. Hrafnhildur fullkomnaði svo borðið með æðislegum mosakúlum og þykkblöðungum sem eru ótrúlega fallegir á matarborðið og mynda ævintýralega stemningu – næstum eins og lítill skógur,“segir Elva.
„Við ákváðum síðan að leyfa kertum og blómum að flæða um allt borðið í stað þess að stilla því sérstaklega upp fyrir miðju eða á sitthvorn endann,“segir Hrafnhildur. Þær stöllur segja að það sé gaman að brjótast út úr fasta rammanum og prófa eitthvað nýtt – þá form, liti sem og aðrar skreytingar.
Óvæntur gestur kemur síðan með eftirréttina og toppar þetta glæsilega jólamatarboð þar sem matur og munúð eru í forgrunni.
Missið ekki af lifandi og skemmtilegu jólaboði hjá Hinrik í þættinum Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar á Hringbraut í kvöld.
Þátturinn er frumsýndur klukkan 19.00 í kvöld og fyrsta endursýning er klukkan 21.00