Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur það ekkert sérstaklega skítt. Hún hefur það bara áberandi gott. Hundrað daga fríið er að baki, en þá neyðist hún vissulega til að snúa til þings í hvorki meira né minna en fjórtán daga. Það eru tvær vikur. Ekki ein, heldur tvær. Allir vita hvað ein vika er langur tími í stjórnmálum, en tvær? Hver er eiginlega svo illa innrættur að láta hana sitja inni í tvær heilar vikur á Alþingi fyrir meint afglöp sín í ráðuneytinu? Hafi það einmitt verið hún – og hafi það akkúrat verið afglöp? Hvar er eiginlega vægðin í þessu samfélagi öllu sem hefur alltaf hampað því merkilega og stórkostlega á kostnað hins venjulega og hversdagslega? Bótin í öllu þessu máli er auðvitað sú að Hanna Birna er að fara í 100 daga sumarleyfi frá Alþingi, altso fram að næsta haustþingi. Og þessi díll allur saman er kannski ekki svo fáránlegur eftir allt saman því vaktataflan er þessi; 100 dagar frí, 14 dagar í vinnu og svo aftur 100 dagarí frí – já og allt á fullum launum, að sjálfsögðu. Þetta er auðvitað alveg brilljant innlegg í allar kjaradeilurnar nú um stundir, því hér getur ríkið sjálft komið með fordæmi, tillögu, jafnvel lausnina sjálfa fyrir allan almenning ...