Nú þegar sumarið er nánast komið og líkamsræktarstöðvar lokaðar – enn þá að minnsta kosti – vegna kórónuveirufaraldursins er tilvalið að skella sér út og hreyfa sig. Þó margir kjósi að hlaupa eða hjóla geta einfaldir göngutúrar hreinlega gert kraftaverk fyrir heilsu okkar og líðan. Vefritið The Active Times tók saman tíu hluti sem gerast í líkamanum þegar við förum út að labba.
Þú brennir fitu
Það vita það allir að líkaminn þarf að nota orkuforða sinn til að hreyfa sig. Orkuforði líkamans er að langmestu leyti í formi fitu þó sykrur séu uppáhaldsorkugjafinn enda auðvelt að brenna þeim. Langir göngutúrar eða göngutúrar þar sem gengið er rösklega geta verið gulls ígildi fyrir þá sem vilja brenna fitu.
2. Þú eykur efnaskiptin
Áreynsla er einn af þeim þáttum sem auka efnaskipti líkamans, eða það sem í daglegu tali er kallað brennsla. Aukinn vöðvamassi er meðal annarra þátta sem geta aukið efnaskiptin. Hraðari efnaskipti geta hjálpað okkur að léttast og veitt okkur aukna orku. Gönguferðir, sérstaklega þar sem gengið er rösklega, fá hjartað til að slá og líkamann til að reyna á sig. Þannig geta gönguferðir stuðlað að hraðari efnaskiptum.
3. Þú færð sterkari fætur
Það segir sig sjálft að þeir vöðvar sem við notum styrkjast samhliða auknu álagi. Gönguferðir auka vöðvaþol og vöðvastyrk í fótleggjum, sérstaklega í kálfum og lærum. Þeir sem vilja styrkja fæturna enn frekar ættu að ganga upp brekkur eða tröppur – jafnvel skella sér í eina fjallgöngu.
4. Hjálpar meltingunni
Göngutúrar, til dæmis eftir kvöldmat, örva meltingarfærin okkar sem gerir það aftur að verkum að líkaminn á auðveldara með að melta matinn sem við borðum. Í rannsókn frá árinu 2008, sem The Active Times vísar til, getur ganga stytt tímann verulega sem maturinn fer í gegnum meltingarveginn. Þá hefur önnur rannsókn sýnt að gönguferðir geta stuðlað að lækkun blóðsykurs.
5. Þú losar spennu
Gönguferðir og raunar öll líkamleg áreynsla kemur hita í vöðvana okkar. The Active Times mælir með því að fólk noti handleggina þegar það gengur og takir stór skref, líkt og viðkomandi sé að teygja á vöðvunum. Það hjálpar líkamanum að losa spennu enda geta teygjur leyst endorfín úr læðingi. Endorfín er stundum kallað vellíðunarhormónið.
6. Þú færð D-vítamín!
Við Íslendingar fáum ekki nóg af D-vítamíni enda lítil dagsbirta á norðurhjara veraldar yfir háveturinn. Við myndum D-vítamín í húðinni út frá sólarljósi og því er um að gera að fara út að ganga meðan birtu nýtur við. Sólarljósið er ekki eina uppsretta D-vítamíns en það má einnig finna í lýsi, fiski og auðvitað D-vítamínbættum mjólkurvörum.
7. Þú minnkar streitu
Gönguferðir geta haft góð áhrif á andlega heilsu okkar, ekki síður en þá líkamlegu. Það hefur verið sýnt með vísindalegum hætti að gönguferðir geta minnkað magn streituvaldandi hormóna í líkamanum.
8. Þú sefur betur
Ef þú átt erfitt með svefn geta gönguferðir gert kraftaverk. Samkvæmt rannsóknum getur hreyfing, þar með taldir göngutúrar, ýtt undir framleiðslu á melatóníni sem stundum er kallað svefnhormónið.
9. Þú styrkir hjartað
Gönguferðir eru ein auðveldasta og árangursríkasta aðferðin til að styrkja hjartað. Þú reynir vissulega á hjartað þegar þú hreyfir þig sem aftur eykur blóðflæðið um líkamann. Allt þetta stuðlar að betri heilsu og heilbrigðara hjarta.
10. Þú kemst í betra skap
Eins og kemur fram hér að framan getur hreyfing stuðlað að framleiðslu á endorfíni. Endorfínið er stundum kallað vellíðunarhormónið og þegar okkur líður vel erum við yfirleitt í þokkalega góðu skapi. The Active Times vísar í rannsókn sem sýndi fram á að starfsmenn í ónefndu fyrirtæki, sem tóku 30 mínútna gönguferð í hádeginu, voru miklu orkumeiri og afkastameiri þegar þeir sneru aftur til vinnu eftir göngutúrinn.