Vigdís: verðum að breyta lifnaðarháttum okkar - „ég trúi á greind mannsins“

Umræðan um loftlagsmál hefur aldrei verið eins mikil og undanfarið. Stjórnvöld um allan heim hafa lagt fram tillögur að umtalsverðum aðgerðum þegar kemur að loftlagsmálum. Í viðtali við vefsíðu UNRIC um loftslagsmál sem birt var í tilefni Alþjóðlega umhverfisdagsins þann 5. júní lýsir Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, ánægju með framtak unga fólksins.

„Mér þykir alveg sérstaklega vænt um það að ungt fólk er vakandi fyrir sinni eigin framtíð. Ungt fólk áttar sig á að þessi loftslagsmál snerta þau mjög mikið, því þau eiga eftir að lifa miklu lengur en þeir sem eru að stýra heiminum í dag.“

Þegar Vigdís var forseti Íslands gróðursetti hún tré hvar sem hún kom án þess að átta sig á því að þar væri á ferð eitt öflugasta tækið til að vinna gegn loftslagsbreytingum.

„Ég hef alltaf verið mjög vakandi fyrir umhverfinu og þegar ég var beðin um að heimsækja fólkið í embættistíð minni færði ég hinum ýmsu byggðum á Íslandi, gróður, ég færði þeim tré. Það var af því að ég vissi að það átti að færa mér fallegar gjafir. Ég frétti að verið væri að prjóna peysur og smíða kistla og steypa leirker handa mér. Og ég hugsaði hvað get ég gefið á móti? Því æ sér gjöf til gjalda, segir gamalt spakmæli. Þá kom til mín þessi snilldarhugmynd:

„Ég gef þeim auðvitað gróður“.

Því þá var svo mikið til umræðu að landið væri svo þurrt að það væri að fjúka burt. Ég ætlaði að kenna æskunni að binda landið og ég gróðursetti alltaf þrjú tré, eitt fyrir strák, eitt fyrir stelpu og svo eitt fyrir ófæddu börnin. Ég lét drengina gróðursetja eitt fyrir stúlkurnar, og stúlkurnar eitt fyrir drengina og svo gróðursettu þau þetta eina tré saman. Það varð til að einn strákur sagði mjög sársaukafullum rómi. „Æ, hún mamma ætlar ekki að eiga fleiri börn. Honum fannst það vera til að eyðileggja fyrir þessu blessaða tréi.

Vigdís segir að með því að forseti Íslands hafi verið að planta trjám hafi myndast skógræktarvakning á Íslandi.

„Þetta gerði það að verkum að það varð skógræktarvakning á Íslandi. Út um allt Ísland er verið að rækta skóga. Ekki vissum við þá eða höfðum að minnsta kosti ekki í hávegum að það eru einmitt skógarnir sem binda koltvísýringinn úr andrúmsloftinu. Þannig að án þess að vita af því þá er ég svo lánsöm að hafa lagt býsna mikið af mörkum. Og í framhaldi af þessum embættisfærslum mínum var stofnaður Ræktunarsjóður æskunnar, en allir skólar geta sótt um pening úr þessum góða sjóði til að kaupa tré og gróðursetja. Ég hef líka verið svo heppin að í forystu sjóðsins hafa alltaf verið skáld fyrst Matthías Jóhannessen, þá Sigurður Pálsson og núna Andri Snær Magnason. Þrjú skáld að yrkja skóg æskunnar á Íslandi.“

Undanfarin ár hefur Vigdís starfað fyrir minningarsjóð Guðmundar Ólafssonar náttúrufræðings, en hlutverk sjóðsins er að endurheimta votlendi á Íslandi. 

„Við erum að fylla skurði. Um tíma í þessu hrjóstugra landi var mikil áhersla lögð á túnrækt. Það var svo mikil bleyta að bændur sóttu um styrki til að grafa skurði til að þurrka upp land og auka landbúnaðinn. Það var auðsótt mál þannig að Ísland er býsna sundurskorið; búræktarhéruðin eru sundurgrafin. En núna erum við í hópi þeirra sem eru að moka ofan í skurði. Það get ég sagt þér að í hitti fyrra mokuðum við ofan í skurð sem hafði þurrkað upp túnið í Skálholti. Ég kom þangað með fjölskyldunni ári seinna og fegurri mýri hef ég ekki séð; spörfuglarnir hlaupandi um kvakandi í þessari blómstrandi mýri.“

Verðum við ekki öll að breyta lifnaðarháttum okkar?

„Nei það er ekki um annað að velja,“ segir Vigdís.

Getum við haldið áfram að borða kjöt í hvert mál, fara í helgarferðir til Kaupmannahafnar og Lundúna. Verðum við ekki að taka, alla lífshætti okkar til endurskoðunar?

„Ég held að við þurfum að hittast og spjalla, sem oftast og setja okkur markmið. Það er ekki alveg hægt að bjóða fólki upp á það að breyta um lífsvenjur frá degi til dags. Það má miklu miklu meira tala um þetta, hvað það er sem veldur þessari vá sem sækir að okkur.“

Hingað til hafa loftslagsmál verið hálfgert jaðarmál í pólitískri umræðu. Hvað vill Vigdís sjá stjórnvöld gera?

„Ég get ekki sagt þeim fyrir verkum en ég get sagt við alla mína góðu vini sem eru í stjórnsýslu á Íslandi; hafið þetta í huga, gleymið ekki að vernda landið því við erum fullkomlega háð því landi sem við göngum á. Við skulum hugsa til dagsins í dag, mér finnst núna vera komin vakning, en hún er nýtilkomin og við erum ekki farin að sjá svo mikinn árangur, en það er eitthvað að gerast.

Við búum á eyju og Sigríður Hagalín Björnsdóttir hefur minnt okkur á í mjög flottri bók hvað gerist ef maður lokast inni á eyju. Þessari þjóð fjölgar mjög mikið á eyju sem hefur rýra landkosti miðað við önnur lönd. Ég trú á greind mannsins, gáfur mannsins og ég trúi því að innan tíðar tökum við á þessum málum rétt eins og við tökum á hvaða aðkallandi máli sem er t.d. í heilbrigðismálum: að við förum að hugsa um heilbrigði jarðar.“