Verkföllum aflýst frá og með morgundegi

Verkföllum hjá bifreiðastjórum Almenningsvagna Kynnisferða hefur verið aflýst frá og með morgundeginum. Í gær lögðu strætóbílstjórar niður störf frá sjö til níu og frá 16:00 til 18:00 og það sama verður uppi á teningnum í dag. Eftir að verkfallsaðgerðum þeirra lýkur í dag hefur öllum verkföllum verið aflýst. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu.

Ákvörðunin var tekin af starfsmönnum eftir viðræður við forsvarsmenn fyrirtækisins í morgun.

Verkföllin hafa valdið röskun á ferðum fólks sem styðst við Strætó sem ferðamáta, þar á meðal í og úr vinnu og skóla, í gær og í morgun. Eins og áður segir munu bifreiðastjórar halda sig við verkfallsaðgerðir dagsins í dag og einnig stöðva akstur milli 16:00 og 18:00. Öðrum verkföllum hefur verið aflýst eftir að verkalýðsfélög féllust á grundvallaratriði kjarasamnings í nótt.