Þórir Björnsson var einn af stofnendum Samtakanna 78 og jafnframt elsti félagsmaður þeirra. Þórir lést þann 27. apríl síðastliðinn. Hann var jarðsunginn í dag í Dómkirkjunni í Reykjavík. Samtökin 78 minnast Þóris í dag í minningargrein. Þar segir:
„Þórir var ákaflega heillandi, hlýr og vandaður maður. Hann tók virkan þátt í félagsstarfi Samtakanna ’78 alla tíð og var ávallt áberandi í gleðigöngu Hinsegin daga. Þórir var vinmargur og hafði unun af því að ferðast. Hann var heiðursfélagi MSC samtakanna í bæði Skotlandi og Englandi.
Þórir var einstaklega örlátur á frásagnir frá fyrri tíð og þökk sé honum þekkjum við sögu okkar mun betur en ella. „Við eigum ekki að setja fólk í kassa. Það skiptir ekki máli af hvaða kyni þú heillast, við erum öll manneskjur“, sagði Þórir í viðtali við GayIceland sem tekið var í tilefni af níræðisafmæli hans árið 2016. Þórir heimsótti Samtökin ’78 síðast þegar blásið var til 40 ára afmælisveislu Samtakanna í Iðnó síðastliðið sumar. Þar, eins og svo oft áður, var Þórir hrókur alls fagnaðar og tók fullan þátt í hátíðarhöldunum.
Samtökin ’78 senda aðstandendum og vinum Þóris innilegar samúðarkveðjur. Með sorg í hjarta munum við öflugan baráttumann sem hafði hugrekki til þess að vera sá sem hann var, á tímum þar sem slíkt var óhugsandi fyrir marga. Fyrir það og fyrir baráttu hans í áranna rás verðum við ævinlega þakklát. Við munum heiðra minningu Þóris með því að sofna aldrei á verðinum og halda áfram baráttunni fyrir fullum réttindum og sýnileika hinsegin fólks á Íslandi.“