„Því miður hef ég þurft að sitja undir ásökunum og sögusögnum frá því að íslenskir fjölmiðlar birtu nafn mitt í tengslum við þetta atvik og hefur það valdið mér bæði skaða og haft slæm áhrif á mína nánustu.“
Þetta segir Þorbergur Aðalsteinsson, fyrrverandi landsliðsmaður og landsliðsþjálfari í handknattleik.
Þorbergur var handtekinn á flugvellinum í Stafangri um miðjan ágúst en Þorbergur var um borð í vél á vegum ungverska flugfélagsins Wizz air, á leiðinni frá Búdapest til Reykjavíkur. Flugvélinni var snúið við og lent í Stafangri eftir að Þorbergur lá undir grun um að reyna að komast inn í flugstjórnarklefa vélarinnar. Helstu fréttamiðlar hér á landi töluðu fyrst um flugrán. Var það orðum aukið.
Blaðamaður Hringbrautar var um borð í vélinni og varð vitni að því þegar Þorbergur sparkaði í tvígang í dyr flugstjórnarklefans. Þá hafði Þorbergur látið ófriðlega áður en hann sparkaði af afli í dyr flugstjórnarklefans. Ósætti Þorbergs má upphafleg rekja til þess að hann fékk ekki súpu sem hann langaði í og varð til þess að hann reiddist.
Þorbergur hefur birt yfirlýsingu vegna málsins. Þar segir hann:
„Ég var ekki undir áhrifum áfengis þegar þetta atvik kom upp enda hef ég ekki snert áfengi frá árinu 2012 í kjölfar heilsubrests.“
Segir Þorbergur að hann hafi þurft að sitja undir ásökunum sem hafi fengið mjög á hans nánustu. Þá segir Þorbergur að lögreglan í Stafangri muni ekki aðhafast frekar vegna málsins.
Það má vera að Þorbergur hafi ekki verið undir áhrifum áfengis, en tekið skal fram að aldrei var minnst á það einu orði á vef Hringbrautar. Þorbergur var hins vegar í annarlegu ástandi þar sem hann sat á fremsta bekk hægra megin í vélinni.
Kvartaði Þorbergur undan því að matur um borð í vélinni væri ekki ókeypis en ákvað að lokum að panta sér súpu. Þegar kom að því að greiða fyrir súpuna var hann einungis með íslenska seðla á sér. Hann reyndi þá að greiða fyrir súpuna með korti en það gekk ekki þar sem hann mundi ekki pin-númerið á greiðslukortinu sínu. Flugfreyjan ákvað því að taka súpuna úr höndum Þorbergs og kom flugfreyjan súpunni í skjól. Mátti heyra á Þorbergi að hann væri afar ósáttur við þessi málalok og sagði:
„Ég vil bara fá súpu.“
Flugfreyjan var þá farin að sinna öðrum verkefnum aftar í vélinni og hafði það farið framhjá Þorbergi sem ákvað að leita flugfreyjurnar uppi, eða einhvern annan sem gæti hugsanlega leyst úr þessu máli. Hann sparkaði í tvígang af afli í flugstjórnarklefann og var eftir það fylgt í sæti sitt. Hélt Þorbergur sig til hlés eftir þetta og virtist hafa sætt sig við örlög sín, sem var að fljúga síðasta klukkutímann til Íslands, svangur. Þorbergur var hljóðlátur og fór lítið fyrir honum í sæti sínu.
Flugstjórinn tók engu að síður þá ákvörðun að snúa vélinni við og halda til Noregs, þar sem allar tilraunir til að nálgast flugmennina eru teknar mjög alvarlega og ekki vitað hvað Þorbergur gæti tekið uppá næst.
Í samtali við Hringbraut sagði lögreglan í Stafangri að Þorbergur hefði verið mjög lyfjaður þegar hann var handtekinn í flugvélinni. Þorbergur sýndi engan mótþróa, var rólegur og fylgdi lögreglunni út.
Eftir að Þorbergur var handtekinn ræddi lögreglan við farþega sem sátu næst honum í vélinni, með það fyrir augum að fá skýrari mynd af því hvað hafði gerst.
Í fyrstu fréttum af málinu var Þorbergur, eins og áður sagði, hafa gert tilraun til að ræna flugvélinni. Voru Jon Dagsland, talsmaður lögreglunnar í Stafangri, sagði í samtali við RÚV að flugmennirnir hefðu ekki notast við orðið „flugrán“ og að ekkert benti til þess að Þorbergur hafi nokkurn tímann haft það í hyggju að ræna vélinni. Dagsland sagði:
„Áhöfninni tókst fljótlega að róa manninn niður, honum var vísað til sætis meðal farþega og var ekki með nein vandræði þegar lögreglan kom um borð og handtók hann.“
Viktoria Hillveg, aðgerðarstjóri lögreglunnar í Stafangri, tók undir þetta í samtali við norska miðla. Tilkynningin frá flugmönnunum hafi ekki verið tekin jafn alvarlega og upphaflega hafi verið gefið í skyn í fjölmiðlum og staðfesti hún að orðið „flugrán“ hafi ekki verið notað. Hún staðfesti einnig að Þorbergur hafi reynt að komast inn í flugstjórnarklefann.
Hér fyrir neðan má lesa yfirlýsingu Þorbergs í heild sinni:
„Lögreglan í Stafangri í Noregi hefur fellt niður rannsókn máls á hendur mér, vegna atviks um borð í flugvél Wizz air um miðjan ágúst 2019. Eins og fram hefur komið hjá lögreglunni í Stafangri, var málið blásið upp í íslenskum fjölmiðlum, langt umfram tilefni.
Ég var ekki undir áhrifum áfengis þegar þetta atvik kom upp enda hef ég ekki snert áfengi frá árinu 2012 í kjölfar heilsubrests.
Því miður hef ég þurft að sitja undir ásökunum og sögusögnum frá því að íslenskir fjölmiðlar birtu nafn mitt í tengslum við þetta atvik og hefur það valdið mér bæði skaða og haft slæm áhrif á mína nánustu. Þess vegna er rétt að ég taki fram að lögreglan í Stafangri í Noregi mun ekkert aðhafast frekar í málinu og er því lokið af þeirra hálfu enda er ekkert tilefni til áframhaldandi rannsóknar né aðgerða.“