Jón Ársæll Þórðarson er gestur Sigmundar Ernis í viðtalsþættinum Mannamál á Hringbraut í kvöld. Hann er einn dáðasti spyrill landsins og vann meðal annars hug og hjörtu landsmanna í þáttum sínum Sjálfstætt fólk.
Í viðtalinu í kvöld rifjar Jón Ársæll upp hvernig einn þáttur af Sjálfstæðu fólki hafi aldrei í loftið, þáttur sem fjallaði um umdeildan mann. „Það var þáttur um Jón stóra, sem var talinn hættulegasti maður á Íslandi,“ segir hann.
Jón Ársæll er ósáttur við hvernig Stöð 2 tók á málinu „Stöð 2 guggnaði, þeir bara höfðu ekki kjark. Og þá komum við að því að útvarps- og sjónvarpsstöð, fjölmiðill, þarf að hafa ákveðinn kjark til að standa í lappirnar. Þetta skortir mjög víða í íslensku samfélagi, sem ég verð var við, allt frá RÚV og niður í smæstu fjölmiðla. Menn hafa ekki döngun í sér til að standa í lappirnar.“
Jón Hilmar Hallgrímsson, ávallt kallaður Jón stóri, var meðal annars vændur um fíkniefnasölu og handrukkun á sínum tíma og talaði raunar oft opinskátt um fíkniefnaneyslu og glæpi sína á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum.
Eftir að Jón stóri féll frá endaði þátturinn sem var aldrei sýndur á nokkuð óvæntum stað, í höndum móður hans. „Hún fékk eintak af þættinum af því að hún vildi eiga minningarnar um son sinn sem hún elskaði út af lífinu. Hann rataði í rétta hendur,“ segir Jón Ársæll.
Mannamál er á dagskrá Hringbrautar í kvöld klukkan 20:00.