Ég stóð í skugganum af kalla bróður

Kvikmyndaframleiðandinn Sigurjón Sighvatsson segir að það geti á stundum verið mjög erfitt og jafnvel vandræðalegt að vinna með mörgum helstu stjörnum Hollywood á upptökustað því þær talist kannski ekkert við utan upptökutímans og leggi jafnvel fæð hver á aðra. Þáttinn má nú sjá hér á vef stöðvarinnar.

Hann er gestur Mannamáls þessa vikuna og kveðst þar, á síðustu 39 árum sem hann hefur lifað og starfað í Los Angeles, hafa unnið með öllum þekktustu stórstjörnum hvíta tjaldsins, nema ef vera kynni Angelinu Jolie, en hún sé þá sú eina sem upp á vanti - og það geti vissulega verið svolítið snúið fyrir kvikmyndaframleiðandann að halda öllum góðum á tökustað þar sem fólk, sem er uppfullt af sjálfu sér, vilji kannski ekkert af meðleikurum sínum vita. Í þættinum rekur hann eitt dæmi af Robert de Niro á tökustað í Mexíkó, en það má heita í pínlegra lagi.

Hann rekur feril sinn allt frá æskuárunum á Skaganum, bassaleikinn í súpergrúppum Íslands á sjöunda og áttunda áratugnum og fráfall bróður hans, Karls Sighvatssonar, sem fékk ógurlega á Sigurjón. Kalli hafi verið ofboðslega stór og fyrirferðarmikill í list sinni og raunar hafi Sigurjón alltaf staðið í skugga hans, enda Kalli svo einstakur listamaður og einstaklingur með alla sína sérstæðu kosti og ókosti að hann hafi jafnan tekið yfir allt sviðið.

Sigurjón lýsir vel hvernig hann tókst á við síþreytuna sem fór að plaga hann fyrir miðjan aldur, en hann varð hreinlega að breyta um allan sinn lífsstíl til að yfirvinna meinið; hætta að drekka, skipta um mataræði og byrja að stunda jóga og gera það að lífsstíl sínum.

Viðtalsþátturinn Mannamál er frumsýndur öll fimmtudagskvöld klukkan 20:30.