Sólbruni, hvað er til ráða?

Helga María fer yfir hvað er til ráða til að koma í veg fyrir sólbruna.

Nú eru að koma páskar og þá kemur bara eitt í hugann á mér, það er að koma sumar. Geislar sólarinnar eru farnir að láta sjá sig og flestir Íslendingar farnir að taka til grillið og sundfötin. Margir nota páskafríið til að ferðast erlendis eða fara á skíði og þá er eitt sem þarf að hafa sérstaklega í huga; sólarvörnin. Við fáum ekki mikið af sólargeilslum og því vill fólk oft sleppa vörninni til að fá meiri lit. Hvort sem að fólk nær örlítið meiri lit án sólarvarnar eða ekki þá er aðeins eitt sem situr eftir þegar húðin brennur af völdum sólargeisla, og það eru línur eða hrukkur.

Það er ekki gott að brenna húðina, hvort sem það er 1. stigs bruni, sem er roði og bjúgur í ysta lagi hornhúðarinnar, eða 2. stigs bruni, en þá er bruninn kominn niður fyrir ytra lag húðarinnar og ofan í leðurhúðina, þá myndast blöðrur og vessi. Bæði veldur þetta verkjum og skemmdum á húðinni og eykur líkur á húðkrabbameini. Það þarf því að passa vel upp á stærsta líffærið okkar, húðina.

Áður en farið er út í sólina eru nokkrir hlutir sem vert er að hafa í huga:

  • Berið á ykkur sólkrem, munið að stuðullinn í Bandaríkjunum er ekki eins og í Evrópu, oft er því ákjósanlegra að kaupa kremið heima.
  • Talan á sólkreminu gefur til kynna margfalda vörn miðað við þá sem húð okkar veitir. 
  • Lesið innihaldslýsinguna á sólkreminu, forðist paraben og ilmefni. Best er að kaupa Svansvottaðar snyrtivörur en þær þurfa að uppfylla strangar kröfur um efnainnihald.
  • Passið að sólkremið innihaldi bæði vörn gegn UVA og UVB geislum.   
  • Berið á alla húðina og ekki gleyma eyrum, tám, hársverði og vörum. Fáið aðstoð við að bera á þá staði sem þið náið ekki til.
  • Drekkið vel af vatni til að koma í veg fyrir ofþornun.
  • Ef roði kemur í húðina skal fara úr sólinni, kæla brennda svæðið og bera aloe vera krem á það.
  • Verra er að liggja alveg kyrr, betra er að vera á hreyfingu og muna að nálægð við vatn magnar upp geislun sólarinnar og það gerir snjórinn líka.  
  • Sum lyf gera mann varnarlausari fyrir geislum sólarinnar, muna að lesa fylgiseðla lyfja.
  • Notið CE merkt sólgleraugu. Einnig er gott að hlífa húðinni með fatnaði.
  • Bruna fylgir verkir, brennd húð er aum og sár og getur tekið nokkra daga að jafna sig. Öllu máli skiptir að kæla brennda húð og muna að sýkingarhætta eykst við brennda húð.