Sjálfstæðisflokkurinn var veiki hlekkurinn

\"Sjálfstæðisflokkurinn var veiki hlekkurinn í þessu stjórnarsamstarfi,\" segir Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins um ásýnd ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar sem er skammlífasta ríkisstjórn lýðveldissögunnar.

Þessi orð Þorsteins féllu í þættinum Ritstjórunum á Hringbraut í gærkvöld. Og hann hélt áfram: \"Það voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem nánast í öllum málum hlupu út og suður. Þeir gátu ekki staðið við stjórnarsáttmálann og gátu ekki staðið við það sem formaður flokksins hafði samið um við aðra í ríkisstjórninni. Það var líka ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem klúðraði málinu sem felldi loks ríkisstjórnina - og sami ráðherra hafði raunar áður klúðrað skipun dómara við nýtt millidómsstig. Og nú hefur forystumaður innan þingflokksins upplýst að þingmenn hans hafi verið búnir að ákveða það að fella fjárlagafrumvarpið og þar með ríkisstjórnina fyrir jól,\" sagði Þorsteinn í þættinum.

Það sé öllu fólki augljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haldið úti órólegu deildinni innan þessa stjórnarsamstarfs, svipaðð og sagt var um þingmenn Vintri grænna í tíð vinstri stjórnarinnar á árunum 2009 til 29013: \"Hinir flokkarnir í stjórninni voru ekki með svona uppsteit og sýndu þvert á móti yfirvegun,\" bætti Þorsteinn við.