\"Ofan af kögunarhóli sem stendur alfarið utan við launhelgar Samfylkingarinnar er eins og stærstu mistökin hafi alls ekki verið færð til bókar,\" skrifar Þorsteinn Pálsson í nýjasta pistli sínum á Hringbraut um þær líflegu umræður sem formaður Samfylkingarinnar hefur hrundið af stað um syndaregistur hennar.
Hann segir að það eigi við um Samfylkinguna eins og aðra flokka að innandyra geti römm valdatogstreita orsakað málefnalega sjónskekkju við aðstæður eins og þessar; líklegt sé að flokksmenn sjái klípuna öðrum augum en utanflokksmenn: \"Ofan af kögunarhóli sem stendur alfarið utan við launhelgar Samfylkingarinnar er eins og stærstu mistökin hafi alls ekki verið færð til bókar,\" skrifar Þorsteinn og segir að ef reynt sé að tímasetja stærstu pólitísku breytinguna á Samfylkingunni sé erfitt að koma auga á annan punkt en þann þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi verið hrakin frá.
Þorsteinn segir að í þessu samhengi sé rétt að nota sögnina að hrekja því að þau brögð sem þar hafi verið í tafli hafi lyktað fremur af refskap en angan lýðræðislegs uppgjörs: \"En burtséð frá persónum og leikendum og öðrum aðstæðum í því valdatafli leiddi það til grundvallarbreytinga bæði að því er varðar pólitík og vinnubrögð. Hnignunin byrjaði fljótlega eftir þá hveitibrauðsdaga,\" skrifar Þorsteinn, þefvís sem fyrr í pólitískum bakherbergjum.
Hann segir muninn vera þennan: \"Á tíma Ingibjargar Sólrúnar og forvera hennar hafði Samfylkingin þá ímynd að geta átt samstarf yfir miðjuna þó að hún kæmi þangað frá vinstri. Eftir að hún var hrakin frá vann flokkurinn ekki aðeins til vinstri heldur baðst beinlínis afsökunar á því að hafa nálgast miðjuna og á þeim forystumönnum sem fyrir því stóðu. Þau heit voru jafnframt strengd að það yrði aldrei gert aftur.\"
Af seinni tíma orðum Samfylkingarfólks megi ráða að flokkurinn hafi bundið fyrir annað augað, ólíkt t.d. Pírötum sem bólgni út, horfi kratar ekki lengur inn á miðjuna, altso í það tómarúm sem nýtist nýjum flokkum nú best: \"Flestir talsmenn Samfylkingarinnar hafa talað um að vinstri flokkarnir eigi að mynda bandalag fyrir kosningar um skýran ríkisstjórnarkost í þá pólitísku átt,\" skrifar Þorsteinn en segir vandann þann að \"hvorki Samfylkingin né VG geta boðið upp á vinstristjórn eins og sakir standa. Það eru Píratar sem hafa þau ráð.\"
Þorsteinn segir þetta ágæta stöðu fyrir Pírata og reyndar líka VG: \"En Samfylkingin er lokuð inni. Eigi að færa Samfylkinguna nær VG er hætt við að ýmsum finnist frumgerðin einfaldlega betri en eftirlíkingin. Sama spurning vaknar ef apa á eftir popúlisma Framsóknar.\"
Niðurstaða Þorsteins er því sú að það verði erfitt fyrir Samfylkinguna að opna þessa stöðu nema hún nái að skapa sér þá ímynd á nýjan leik að hún geti sjálfstætt og upp á eigin spýtur unnið inn að miðjunni: \"En vill hún það,\" spyr Þorsteinn Pálsson.