Til tíðinda hefur dregið hjá Ríkisútvarpinu eftir bylgju vanndlætingar meðal hægri fólks sem reis á Íslandi eftir að stofnunin sýndi áramótaskaupsútfáfu af Stundinni okkar sem fór fyrir brjóstið á stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar.
Á facebook-síðu Rúv birtist árétting í gær frá dagskrárstjóra Sjónvarps, en þar segir:
„Við fólum einhverjum færustu stjórnendum og framleiðendum barnaefnis á Íslandi að sjá um Stundina okkar fyrir nærri þremur árum. Þeir hafa staðið undir væntingum og trausti, fært barnefni [svo] upp á hærra plan á marga vegu og hlotið mikið lof fyrir. Stundin okkar hefur, undir þeirra stjórn, verið vandað og metnaðarfullt barnaefni sem hefur glatt og frætt æsku landsins. Í fyrra (2014) var boðið upp á skemmtilega nýjung með áramótagríni sem ætlað var fjölskyldunni allri og var það nefnt Stundarskaupið. Það sló í gegn og mæltist afar vel fyrir. Í Stundarskaupinu 2015 var atriði sem er ekki í samræmi við þá ritstjórnarlínu sem við höfum fylgt varðandi barna- og fjölskylduefni. Full ástæða er til að biðjast afsökunar á því. Ég og umsjónarmenn Stundarinnar okkar erum sammála um að barnaefni er ekki og á ekki að vera vettvangur pólitískrar ádeilu og það hefur ekki breyst.“
Ekki kemur fram hvaða atriði það er sem Ríkisútvarpið með allt listræna frelsið sem og sjálfstæðu efnistöku að vopni biðst afsökunar á.
Hvorki fleiri né færri en þrír þingmenn hafa birt í dag greinar þar sem pólitískri innrætingu til barna er mótmælt hjá Rúv.