37% þjóðarinnar eða tæplega tvöfalt fleiri en þeir sem vilja að Bjarni Benediktsson verði forsætisráðherra vilja sjá Katrínu Jakobsdóttur formann VG sem næsta forsætisráðherra skv. nýrri könnun Gallup. Hátt í helmingur íslenskra kvenna vill sjá Katrínu sem forsætisráðherra og er hún vinsælli meðal yngra fólks en eldra, og einkum meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins. Aðrrir leiðtogar stjórnmálaflokka fá hverfandi stuðning í forsætisráðherraembættið skv. könnun Gallup. Aðeins 5% þjóðarinnar eru ánægð með að Sigurður Ingi Jóhannsson sé forsætisráðherra þjóðarinnar og verður að teljast líklegt að aldrei hafi pólitískur þjóðarleiðtogi notið svo lítils trausts.
En hvað segir sigurvegari mælingarinnar um niðurstöðuna nú?
\"Það er mjög ánægjulegt að fá svona könnun en ég tek niðurstöðunni með fyrirvara. Svona fylgi getur verið fallvalt,\" segir Katrín Jakobsdóttir, langvinsælasti stjórnmálaeiðtogi landsins nú um stundir í viðtali við Hringbraut.
En breytir þessi góða mæling þín einhverju um vilja og metnað VG til að verða aðilar að næstu ríkisstjórn að loknum haustkosningum?
\"Ég veit það ekki, við höfum metnað til að hafa áhrif hvort sem er í gegnum stjórn eða stjórnarandstöðu eins og dæmin sanna. Við stefnum að sjálfsögðu á að hafa sem mest áhrif, sú stefna ræður för. En auðvitað held ég að allir mínir félagar gleðjist yfir góðu gengi flokksins í skoðanakönnunum,\" segir Katrín og leiðir talið burt frá sjálfri sér. Hún vísar til þess að flokkur hennar mælist nú með um 20% fylgi sem er meira en um mjög langt skeið.
Hringbraut hefur fjallað um umdeildan fund á morgun í Iðnó þar sem nokkrir fulltrúar úr ýmsum ólíkum pólitískum áttum hefja samtal sem spurt hefur verið hvort kunni að verða ígildi kosningasáttmála. Fundurinn er að undirlagi Magnúsar Schram ráðgjafa sem er í formannsslag hjá Samfylkingu. Varaþingmaður VG situr fundinn og mun flytja erindi.
Er þessi fundur til marks um að kosningasáttmáli stjórnarandstöðuflokkanna kunni að vera í uppsiglingu?
\"Ég hef alltaf talað fyrir því að vinstri flokkarnir tali sig saman og vinni saman eftir kosningar ef úrslit leyfa. Ég hóf minn pólitíska feril innan Röskvu og Reykavíkurlista og er fylgjandi því að félagshyggjuöflin starfi saman ef aðstæður leyfa,\" svarar Katrín.
En hvort líturðu svo á sem Píratar séu vinstri flokkur eða ekki?
\"Píratar hafa hvorki viljað skilgreina sig til vinstri né hægri. Þeirra skilgreining þarf að liggja fyrir. Sjálfri finnst mér mikilvægast að setja á stefnuoddinn mál sem varða sjálfbæra þróun, kynjajafnrétti, aukið gagnsæi og betra lýðræði. Þetta eru þær áherslur sem stjórnmálahreyfingar verða að gera upp við sig hvort þær eru sammála um.
Ekki dugi Pírötum að vera opnir í báða enda
Ein helsta átakabirtingarmynd Pírata í vetur hefur snúið að því hvort pláss sé fyrir bæði hægri og vinstri stefnu innan þeirra samtaka. Hatrammar deilur spruttu af því þegar Birgitta Jónsdóttir þingmaður sýndi því litla þolinmæði ef hægri sinnuð frjálshyggjuöfl hygðust taka flokkinn yfir. Birgitta var gagnrýnd fyrir en hún hefur verið talin hneigjast meira til vinstri en hægri. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur talað með mildilegum hætti um að engum skuli úthýst innan Pírata, svo fremi sem flokkssamþykktir ráði stefnu.
Ef Píratar og Vinstri grænir ætla sér að vinna saman, en þessir tveir flokkar myndu ná hreinum meirihluta á Alþingi skv. skoðanakönnunum, virðist samkvæmt ummælum Katrínar Jakobsdóttur að Píratar standi á tímamótum og verði að senda kjósendum skýrari pólitísk skilaboð en til þessa.
Ef til vill eru það stærstu pólitísku skilaboðin sem fram hafa komið um nokkurt skeið.
Fréttaskýring: Björn Þorláksson.