Mogginn: þaggar niður í sendiherra?

Grein eftir sendiherra Bandaríkjanna sem send var Morgunblaðinu fékkst ekki birt.  Pólitísk stefna blaðsins kann að vera að baki.

Morgunblaðið hefur verið í fararbroddi fjölmiðla hérlendis sem hampað hafa sjónarmiðum eigenda blaðsins, útgerðarmanna í makríldeilunni. Blaðið hefur ítrekað gagnrýnt ákvörðun Gunnars Braga Sveinssonar utanríkusráðherra að verja viðskiptaþvingarnir gegn Rússum sem bitna á sölu sjávarafurða til Rússlands.

Á facebook-síðu Bandaríska sendiráðsins á Íslandi hefur nú verið birt grein eftir sendiherrann Robert Cushman Barber. Kemur fram á síðunni að hún hafi verið send Mogganum en ekki fengist birt. Eyjan.is greindi fyrst frá. Þetta sætir tíðindum í ljósi þess að afar náið samband var lengst af milli bandaríska hersins hér á landi og Morgunblaðsins. Var sjaldnast fjallað neikvætt um sjónarmið Bandaríkjanna í blaðinu, hvað þá sendiherra þeirra hér í landinu.

Grein Barber er skrifuð vegna forsíðufréttar Morgunblaðsins þar sem því var haldið fram að Þýskaland og Bandaríkin hefðu gert tilslakanir á viðskiptaþvingunum gagnvart Rússum í viðskiptaskyni. Sendiherra Bandaríkjanna hafnar frétt Moggans alfarið í greininni.

Fyrir skemmstu birti blaðið leiðara eftir Davíð Oddsson þar sem rætt var um almannaútvarp eins og svo oft áður. Einn kunnasti gagnrýnandi þjóðarinnar, Jón Viðar Jónsson greindi leiðarann og skrifaði þá á fésbók.

„Leiðari Morgunblaðsins í morgun er athyglisverður. Þar er sett fram sú skoðun að þeir stjórnmálaflokkar, sem hafi þingmeirihluta hverju sinni, eigi að ráða starfsmannamálum Ríkisútvarpsins. RÚV eigi með öðrum orðum að vera málpípa ríkjandi stjórnvalda á hverjum tíma sem hlýtur að þýða að skipt verði um alla yfirmenn (og eflaust í framhaldinu aðra starfsmenn eftir hentugleikum) við hver ríkisstjórnarskipti. Ég hef satt að segja aldrei séð slíku og þvílíku haldið fram á jafn óskammfeilinn hátt og þarna er gert.“

Einnig segir krítíkerinn almennt um áhrif fjölmiðla og viðleitni ráðamanna til að stýra þeim:

„Við vitum að yfirráð yfir fjölmiðlum er gríðarlega mikið og sterkt valdatæki, sem hefur komið þeim vel sem hafa komist yfir þá. Þar geta óvandaðir einstaklingar og hagsmunaöfl stundað linnulausan áróður - eins og við þekkjum vel.“

Hringbraut hefur í dag heyrt í fyrrverandi blaðamanni Morgunblaðsins sem segist ekki sjá betur en ritskoðun og þöggun í pólitískum tilgangi hafi heltekið blaðið.

Grein Barber fér hér á eftir:

Varðandi refisaðgerðir

Mig langar til þess að bregðast við því sem kom fram í frétt Morgunblaðsins þann 4. janúar sl. um refsiaðgerðir Bandaríkjanna gegn Rússlandi vegna aðgerða þeirra í Úkraínu.

Bandaríkin eru staðföst í þeirri trú sinni að það þurfi að halda áfram refsiaðgerðunum gegn Rússlandi þar til landið uppfyllir skuldbindingar sínar samvæmt Minsk-samkomulaginu. Þessum refsiaðgerðum var komið á til þess að bregðast við alvarlegum brotum á alþjóðlegum reglum og fullveldi þjóða á uppbyggilegan og gætinn hátt án þess að grípa til vopna. Við treystum öll á og verðum að vernda alþjóðlegt kerfi, sem útheimtir virðingu fyrir fullveldi þjóða. Án þessarar grundvallarreglu stafar hætta að okkur öllum. Þess vegna er mikilvægt að allar þjóðir, sem halda grundvallarlögmál réttarríkisins í heiðri, standi saman.

Varðandi það sem kemur fram í greininni um að Bandaríkin hafi sótt um undanþágur fyrir rússneska varahluti í þyrlur langar mig að taka fram að í nóvember 2015 leyfðum við sendingu á slíkum varahlutum sem afganski herinn þarfnaðist fyrir Mi-17 þyrlur sínar. Þessir varahlutir féllu undir refsiaðgerðir er snúa að takmörkun á útbreiðslu gereyðingarvopna, sem settar voru á samkvæmt bandarískum lögum um slíkar takmarkanir að því er varðar Íran, Norður-Kóreu og Sýrland. Þessir varahlutir falla ekki undir refsiaðgerðir vegna Úkraínudeilunnar. Þessi aðgerð hafði þann takmarkaða og ákveðna tilgang að aðstoða öryggissveitir Afgana í baráttu sinni gegn hryðjuverkum.

Bandaríkin, líkt og Ísland og aðrar þjóðir, hafa fundið fyrir afleiðingum refsiaðgerðanna vegna Úkraínudeilunnar og gagnaðgerðum Rússa. Við vitum að þessu fylgir kostnaður. Sem dæmi má nefna að á milli áranna 2014 til 2015 minnkaði útflutningur frá Bandaríkjunum til Rússlands stórlega vegna refsiaðgerðanna, og varð landbúnaðurinn fyrir mestum skakkaföllum.

Við sýnum því skilning að aðgerðirnar hafa haft áhrif á íslenskan sjávarútveg og vitum að þær geta haft þungbær áhrif á sum byggðarlög á landsbyggðinni. Engu að síður teljum við mikilvægt að við sem bandamenn í Norður-Atlantshafsbandalaginu (NATO) höldum áfram að standa vörð um nauðsynlegar grundvallarreglur sem eru í húfi ef við ætlum að draga úr árásargirni og viðleitni til að breyta landamærum með vopnavaldi.

Robert Cushman Barber