Ein er sú snót í þessum heimi sem sífellt liggur undir ámæli. Þessi snót er Blaðamennskan.
Í tilfelli okkar Íslendinga er lýsandi að kalla blaðamennskuna snót.
Snótin sú er ung og óþroskuð. Hefur aldrei náð fullu sjálfstæði. Íslendingar eru vanir því að fylgjast með þeim fjölmiðlum sem þeir eru sammála og styrkja fyrri skoðanir notenda, viðhalda eigin fordómum líka. Oft hafa pólitískar áherslur ráðið för og ákvarðað hvort fjölmiðill lifir eða deyr. Pólitík stjórnaði fjölmiðlun 19. aldar að mestu hér á landi og sama má segja um 20. öldina uns flokksblöðin dóu drottni sínum.
Sumir segja að flokksblöðin gömlu hafi nú verið endurvakin – en í líki Trójuhesta.
Gagnsæi er minna en áður.
Fylkingar berjast um upplýsingaleg yfirráð. Fyrir liggur að öflugustu stjórnmálahreyfingar landsins og klíkur munu miklu kosta til að spinna og fabrikkera fréttir þegar líður að kosningum, það getur verið góð hugmynd að tapa nokkur hundruð milljónum í fjölmiðlun ef völd koma í staðinn. Sumir myndu líta á það sem markaðskostnað.
Sjálfstæð og gagnrýnin blaðamennska á erfitt uppdráttar í svona árferði – enda hefur íslenskur almenningur enn ekki vanist þeirri hugsun að hægt sé að vera blaðamaður hér á þessu fámenna skeri án þess að vera í sérstöku liði.
Ekki hefur hjálpað til að vegna skorts á regluverki náðu umdeildir menn langstærstum hluta einkamarkaðar til sín á skömmum tíma. Viðskiptaerindi eða viðskiptahagsmunir (aðrir en lögmál blaðamennsku) eru ekki endilega skárri undirstöður fjölmiðla en pólitískt erindi.
En við erum nokkur sem höldum áfram þessu brölti. Nokkur okkar leita sér samastaðar hjá litlum fjölmiðlum vegna þess að við trúum að við séum að lokinni menntun okkar og áratuga reynslu af sérfræðistarfinu blaðamennsku bærari en flest annað fólk til að leita upplýsinga, greina þær, hafa samband við heimildir, tékka staðreyndir, sleppa undan spunatröllunum, túlka veruleikann með þeim hætti að gagnist almannahagsmunum, en sú er eina skylda blaðamannsins. Að sýna almannahagsmunum meiri virðingu í starfi en eigin hagsmunum. Þannig á eigendavald ekki að trufla störf blaðamanna. En vitaskuld er samt svo víða. Eigendur ráða til sín ritstjóra sem þeim er geðfelldur og enginn eigandi ræður til sín ritstjóra sem líklegt er að ruggi sérstaklega hagsmunum eigandans. En sumir eigendur minni fjölmiðla hafa meira þanþol en aðrir. Það er þó gott.
Eftir stendur að mistakahætta lítilla fjölmiðla er meiri en á stærri miðlum þar sem fleiri síur koma að efninu áður en það fer út. Við sáum það síðast í gær, svo ég lýsi eigin skoðun. Ég tel að Hringbraut, sá fjölmiðill sem greiðir mér laun mánaðarlega, hafi gert mistök með því að búa til frétt upp úr nafnlausum skrifum.
Því hefur verið haldið fam á opinberum vettvangi að ég hafi sem gagnrýninn blaðamaður sem skrifa reglulega fjölmiðlarýni til lofs eða lasts um kollega mína misst trúverðugleika til að gagnrýna aðra fjölmiðla af því að Hringbraut hafi í einni frétt brotið lögmál góðrar blaðamennsku. Sá sem heldur því fram virðist gefa sér að óhugsandi sé að blaðamenn hafi frelsi til að gagnrýna eigin fjölmiðil opinberlega. Það er mikill misskilningur. Ef ég hefði sjálfur gert fyrrnefnd fréttamistök væri ég búinn að biðja lesendur afsökunar á þeim. En ég held líka að það sé nógu hátt til lofts og nógu vítt til veggja hér á hringbraut.is til að ég telji mig hafa frelsi til að gagnrýna samstarfsmenn sem birtu fréttina. Ef svo væri ekki, ynni ég ekki hér. Einnig skal tekið fram að ég liti ekki á fyrrnefnd mistök sem frávik værum við öll í vondum málum. Ég lít á mistökin sem frávik. Að öðru leyti er ég stoltur af því að vera hluti af samhentri áhöfn Hringbrautar sem vinnur að mínu viti kraftaverk daglega, bæði í sjónvarpi og á vef.
Frelsið er alfa og ómega blaðamennsku. Hluti þess frelsis á að felast í því að blaðamenn hafi frelsi til að gagnrýna eigendur eigin fjölmiðla, eigin yfirmenn og aðra, opinberlega ef vill. Ég sé mig knúinn til þess. Að kóa með mistökum annarra er vond blaðamennska. Og allir gera mistök.
Fari svo að það hafi neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir mig að standa ekki með hverri einustu afurð sem frá okkur kemur var frelsið aðeins tálsýn.
Með gagnrýninni, sjálfstæðri og vandaðri blaðamennsku vinnum við blaðamenn að þeirri skyldu fjórða valdsins að veita löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi og dómsvaldi aðhald. Stofnanir samfélaga gera allar mistök, þá kemur mikilvægi fjölmiðla í ljós. Það á einnig að eiga við um mistök sem verða á okkar eigin fjölmiðlum.
Ég óska kollegum mínum góðrar blaðamennsku á árinu 2016 þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Það er ekki einfalt að starfa í geira þar sem hagsmunafjölmiðlun yfirskyggir frjálsa fjölmiðlun en ég er samt bjartsýnn. Áfram munu margir kynda kolaofninn, leggja starf sitt undir, sættast á bág kjör vegna hugsjónar blaðamennskunnar.
Og það mun koma að því að snótin blaðamennska verður fullorðin hér á landi. En til að svo geti orðið verður almenningur einnig að taka til í eigin garði. Styðja sjálfstæða og gagnrýna blaðamennsku en grípa ekki pilsfald valdsins. Valdið sér aðallega um sig og sína en síður um almenning og almannahagsmuni.
(Þessi fjölmiðlarýni Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)