Maðurinn sem eva joly vildi draga til ábyrgðar

Það var bljúgur fyrrverandi stjórnmálaskörungur sem mætti í viðtal við Pál Magnússon á Bylgunni í gær til að tilkynna eigið framboð til embættis forseta Íslands. Davíð Oddsson hefur í meira en tuttugu ár haft augastað á Bessastöðum. Hann ætlaði að bjóða sig fram 1996, árið sem Ólafur Ragnar Grímsson var fyrst kjörinn forseti, en skoðanakannanir sem gerðar voru til að kanna hug kjósenda til mögulegs framboðs bentu til þess að litlar líkur væru á að hann næði kjöri.

Davíð Oddsson er stjórnmálamaður 20. aldarinnar, rétt eins og Ólafur Ragnar Grímsson. Þeir tveir eru óumdeilanlega mestir stjórmálaforingjar sinnar kynslóðar hér á landi, þótt ólíkir séu. Davíð er hins vegar ekki jafnoki Ólafs og ferill hans sem ráðherra og seðlabankastjóri gaf ekki til kynna að hann væri sérlega sterkur á velli á alþjóðavettvangi, þar sem Ólafur hefur löngum blómstrað. Engum kemur til hugar að Davíð Oddsson hefði getað varið hagsmuni Íslands á erlendum vettvangi í kjölfar hrunsins með sama glæsibrag og Ólafur Ragnar. Davíð er sterkastur í hópi einlægra aðdáenda sem tala ástkæra ylhýra málið okkar á meðan Ólafur Ragnar virðist rísa hæst þegar andstaðan er mest líkt og frægt viðtal hans við Jeremy Paxman á BBC sýndi.

En báðir eru þeir 20. aldar menn og tími þeirra beggja er liðinn. Raunar virðist Davíð mega þakka fyrir að vera kjörgengur því erfitt er að sjá nokkurn mun á hans athæfi í Seðlabanka Íslands í aðdraganda hrunsins og meðan á því stóð og því athæfi sem stjórnendur viðskiptabankanna stóru hafa verið dæmdir í fangelsi fyrir. Er það ekki markaðsmisnotkun að lofa því f.h. ríkisins að kaupa 75 prósent í Glitni og tryggja þannig stöðugleika íslenska bankakerfisins og standa síðan ekki við kaupin? Eru það ekki umboðssvik að lána allan gjaldeyrisforða Seðlabankans einum banka og borga út peningana áður en búið er að ganga frá lánaskjölum og veðum? Ég hef gagnrýnt dóma yfir bankamönnum og talið dómstóla hafa teygt skilgreiningar á brotlegu athæfi út fyrir siðleg mörk en Hæstiréttur hefur verið mér ósammála. Samkvæmt dómafordæmi Hæstaréttar verður ekki betur séð en að Davíð Oddsson sé margfaldur brotamaður, jafnvel mætti kalla hann óreiðumann í þeim skilningi.

Ég ræddi við Evu Joly vorið 2010 og spurði hana hvort ekki ætti að rannsaka Seðlabankann og hlut hans í hruninu rétt eins og annarra banka sem féllu. Joly fullvissaði mig um að þetta yrði rannsakað. Sérstaklega nefndi hún að þáttur Davíðs Oddssonar yrði rannsakaður vegna þess að mikilvægt væri fyrir þjóðina að gera upp hans þátt í hruninu og orsökum þess. Þetta gekk ekki eftir. Þetta kemur fram í bók minni, Skuggi sólkonungs. Nokkru síðar sleit sérstakur saksóknari samstarfi við Joly og Seðlabanki Davíðs hefur ekki verið rannsakaður.

Uppgjörið við þátt Davíðs í hruninu hefur aldrei farið fram. Það mun fara fram á næstu vikum fram til forsetakosninga. Ef marka má nýjustu skoðanakönnun MMR hefur stór hluti þjóðarinnar þó gert upp hug sinn gagnvart Davíð. Hann mælist með 3,1 prósenta fylgi í könnun sem gerð varð dagana 6.-9. maí. Einungis 27 prósent svarenda gat valið Davíð þar sem hann lýsti ekki framboði fyrr en í gær, þannig að 3,1 prósent fylgi bendir til að heildarfylgi við hann sé á bilinu 11-12 prósent.

Jafnvel þó að allt fylgi Ólafs Ragnars Grímssonar færist yfir á Davíð, þegar og ef Ólafur dregur framboð sitt til baka, eins og hann nánast lýsti yfir í viðtali við Björn Inga Hrafnsson á Stöð 2 í gær, dugar það ekki til því Guðni Th. Jóhannesson fer með himinskautum og mælist með 60 prósenta stuðning.

Framboð Davíðs Oddssonar er langt umfram eftirspurn eftir honum. Hann þekkir ekki sinn vitjunartíma, ekki frekar en Ólafur Ragnar Grímsson.