Andstaða við 3000 tonna tilraunaeldi

Landssamband veiðifélaga hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem félagið lýsir yfir eindreginni andstöðu við fyrirhugað þrjú þúsund tonna tilraunaeldi á frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi, en sambandið hefur sent Hafrannsóknarstofnun bréf þar sem afstaða þess er ítrekuð. 

Í yfirlýsingunni segir sambandið að verkefnið sé tilgangslítið og varar Hafrannsóknarstofnun eindregið við því að „fjármunum verði sóað“ í það. 

Hafrannsóknarstofnun sendi frá sér fréttatilkynningu í júlí þar sem greint var frá fyrirhuguðu tilraunaeldi og er tilgangur þess að rannsaka ákveðna þætti fiskeldis í samvinnu við eldisfyrirtæki. Þá yrðu umhverfisþættir mældir sérstaklega og umhverfi kvíanna vaktað sérstaklega með tilliti til lífríkis. 

Landssamband veiðifélaga segir að þeir þættir sem Hafrannsóknarstofnun ætli að rannsaka eigi að vera stofnuninni kunnir þar sem slíkar rannsóknir hafi verið stundaðar í Noregi um árabil. Þær hafi verið kynntar og ræddar opinberlega á Íslandi og því ætti stofnunin ekki að komast að neinni niðurstöðu sem er ekki þekkt nú þegar.

Nánar á

http://www.visir.is/g/2018180828708/lysa-yfir-andstodu-vid-thrju-thusund-tonna-tilraunaeldi-i-isafjardardjupi