Landlæknir hefur varað við að ung börn lifi eingöngu á jurtafæði, eða vegan fæði. Frétt DV frá því fyrr á árinu þar sem vitnað er í umfjöllun á vef Landlæknis hefur farið aftur á flug í kjölfar umræðu um skólamáltíðir. Greinarhöfundar eru Elva Gísladóttir og Hólmfríður Þorgeirsdóttir en þær eru verkefnastjórar næringar hjá embættinu, segja einnig að aðrir hópar þurfi einnig að passa sig á grænkerafæði. Í greininni segir:
„Strangt jurtafæði hentar ekki ungum börnum. Jurtafæði án mjólkur og eggja, þ.e. grænkerafæði (e. Vegan), er ekki viðunandi næring fyrir ungbörn nema sérstök kunnátta eða ráðgjöf komi til. Jurtadrykkir henta ekki ungbörnum heldur er mælt með brjóstagjöf en fyrir þau börn sem ekki eru á brjósti eða fá ekki nóg er mælt með móðurmjólkurblöndu til hálfsársaldurs og svo stoðblöndu, til dæmis Stoðmjólk, eftir það.“
Þá segir enn fremur:
„Einnig þurfa aðrir viðkvæmir hópar eins og barnshafandi konur og konur með börn á brjósti að vanda val sitt á matvælum. Eins má nefna að grænkerafæði hentar illa fyrir einstaklinga með litla matarlyst og sem borða lítið þar sem kjöt og mjólkurvörur veita mikilvæga orku og prótein og önnur næringarefni í minni skömmtum en jurtafæði.“
Í greininni segir einnig að mikilvægt sé að maturinn sé fjölbreyttur:
„Það er heilsufarslegur ávinningur af því að borða mikið af grænmeti, ávöxtum, berjum, ertum, baunum og öðrum mat úr jurtaríkinu. Þessi heilsufarslegi ávinningur af því að neyta jurtafæðis á einnig við um þá sem borða samkvæmt opinberum ráðleggingum um mataræði, þ.e. að auka neyslu á fæðu úr jurtaríkinu án þess þó að útiloka fæði úr dýraríkinu. Það er ávallt mikilvægt að hafa fjölbreytnina í fyrirrúmi, einnig fyrir þá sem neyta jurtafæðis.“
Þá telja þær stöllur að veganistar þurfi á fæðubótarefni að halda. Einnig er þeim sem neyta ekki neinna dýraafurða bent á að taka inn fæðubótarefnin B12 vítamín, D- vítamín og joð. Þá segja Elva og Hólmfríður:
„Eftir því sem fleiri fæðutegundir eru útilokaðar úr mataræðinu því mikilvægara er að vanda vel valið og velja matvæli sem innihalda þau efni sem líkaminn þarf á að halda. Ef mjólk og egg eru hluti af mataræðinu, svo ekki sé nú talað um fisk, þá er þetta mun auðveldara en ef ekki er neytt neinna dýraafurða.“