„Það skiptir máli hver segir manni sjónvarpsfréttir. Maður vill ekki að stirðbusalegur og fýlulegur einstaklingur sé í því hlutverki. Nóg er af leiðindum í þjóðfélaginu sjálfu þótt fréttaþulur fari ekki að bæta á það. Best er að í hlutverki fréttaþular sé einhver með þægilega nærveru sem skilar sér alla leið inn í stofu til manns. Sindri Sindrason er einmitt fréttamaður af því tagi.“
Þetta segir Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður í pistli á Fréttablaðinu. Kolbrún bætir við að Sindri mætti sjást oftar á skjánum.
„Það er eiginlega sama hversu drungalegar fréttirnar eru alltaf tekst Sindra að fá mann til að líða betur. Hann getur sagt spillingarfréttir, eins og við heyrum nú nær daglega, en samt fengið mann til að viðhalda trú á mannkyninu – jafnerfitt og það nú er. Eftir að hafa sagt fréttina sýnir hann svipbrigði, rétt eins og hann sé að senda manni þögul skilaboð eitthvað á þessa leið: Já, þetta er ömurlegt og óþolandi en gefumst ekki upp. Það góða fyrirfinnst víða.“
Kolbrún segir Sindra ljóma þegar hann segir frétt af börnum og virðist alltaf vera í góðu skapi.
„Vissulega öfundsverður eiginleiki. Hann blómstrar á skjánum. Á tímum eins og þessum, þegar ekki verður annað séð en að spilling grasseri á of mörgum stöðum er ágætt að fá á skjáinn mann eins og hann sem segir manni vondu fréttirnar en gefur manni einnig til kynna með ljúfum svipbrigðum að heiðarleiki blómstri vissulega á ýmsum stöðum.“