Er réttlætanlegt að ríkið bjargi íslensku flugfélögunum ef allt fer á versta veg?
Það er ein af mörgum spurningum er varða rekstrarvanda Icelandair og WOW air en í fréttum hefur verið fjallað um hvernig íslenska ríkisstjórnin fylgist með gangi mála í rekstrinum.
Íslensku flugfélögin flytja um 80 prósent farþega til og frá landinu í gegnum Leifsstöð. Staða þeirra markast núna af rekstrarerfiðleikum, launakostnaður Icelandair er komin í rúmlega 36 prósent af tekjum félagsins og tvær afkomuviðvaranir gerðar á tveimur mánuðum. Wow air er í meiriháttar skuldabréfaútboði, þarf sex til tólf milljarða króna til að bjarga félaginu - og býður lánveitendum kauprétt að bréfum í félaginu sem fá þá afslátt á kaupunum.
Gestir í Lindu Blöndal í kvöld í þættinum 21 eru Jón Karl Ólafsson fyrrverandi framkvæmdastjóri flugsviðs Isavia, hann var forstjóri Icelandair á árum áður sem og framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands og Steinn Logi Björnsson, forstjóri Bluebird Nordic og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá svo Icelandair til 20 ára.
Jón Karl segir útilokað að ríkið megi grípa inn í falli flugfélögin og Steinn Logi segir slíka umræður hafi líklegaskapast í ljósi þess að þýsk stjórnvöld blönduðu sér inní hrun Air Berlin með þeim hætti að þau skipulögðu fallið, ef þannig má að orði komast.
Þeir benda á að orsökin fyrir slæmri stöðu Icelandair sé aðallega vegna breytinga sem gerðar voru á leiðarkerfinu og Steinn nefnir lokun söluskrifstofa erlendis í fyrra sem hafi þvert á móti gert félaginu ógagn. Ekki síst er launakostnaður gríðarlega þung byrði og framleiðni starfsmanna minnkað. Samkeppni er einnig orðin gríðarleg, 29 flugfélög fljúga til Íslands og þrettán félög allt árið í kring.
Tilvist íslenskra flugfélaga er ekki jafn mikilvæg og áður og í viðtali kvöldsins færa Steinn Logi og Jón Karl rök fyrir því að þau séu ekki lengur nauðsynleg. Þjóðhagslegt mikilvægi flugfélaganna er fyrst og fremst vegna þeirra fjölda starfa sem eru innan fyrirtækjanna.
Jón Karl sagðist þá vita til þess að skuldabréfaútboð Skúla Mogensen gangi vel og taldi litlar sem engar líkur á að það myndi ekki heppnast. Hann sagði að af eigin reynslu sé mjög erfitt að ná í fjármagn til íslensks flugrekstrar erlendis frá og ef svo fari sem líkur eru á að Skúla takist það þá er það afrek, segir Jón í viðtalinu.