Fyrirtækið Reykjavík Geothermal vinnur að risavöxnum orkuverkefnum í jarðvarma í Eþíópíu, verkefni sem telja uppkomin samanlagt um 500 milljarða íslenskra króna. Guðmundur Þóroddsson stjórnarformaður félagsins segir í viðtali í þættinum Ísland og umheimur á Hringbraut að þessi verkefni muni skila sér í aðkeypta vinnu á Íslandi. Hann segir mikil tækifæri vera í uppbyggingu orku Afríku.
Viðtalið við Guðmund í heild sinni er að finna hér:
Þörfin á uppbyggingu þekkingar og innviða í Afríku er mikil. Í álfunni búa nú um 1300 milljónir manna og árið 2050 er því spáð að í Afríku muni búa um 2,500 milljón manns. Í Eþíópíu, næst fjölmennasta landi Afríku, búa nú 110 milljónir manna. Þetta er eitt af fátækari ríkjum heims en þar hefur á síðustu tveimur áratugum verið undraverð framþróun. Mjög hefur dregið úr fátækt og hagvöxtur hefur verið með því mesta sem gerist í heiminum.
Niður Austur Afríku liggur „Sigdalurinn mikli“ sem er gríðarstórt misgengi á plötuskilum Afríku-, Arabíu- og Indlandsflekans. Þar undir liggja grunnstæð orkuhólf sem í dag eru talin ein bestu jarðhitasvæði heims til framleiðslu á umhverfisvænni raforku.
Selja þekkingu Íslendinga
Orkufyrirtækið Reykjavík Geothermal hefur undanfarin ár selt þekkingu Íslendinga í uppbyggingu jarðvarmavirkjana víða um heim. Veigamestu verkefni fyrirtækisins eru í Eþíópíu, þar sem unnið er í samstarfi við stjórnvöld landsins, að uppbyggingu tveggja fimmhundruð megavatta jarðhitavirkjana.
Þessi verkefni eru feiknastór. Samningar fyrirtækisins við stjórnvöld Eþíópíu um uppbyggingu virkjananna og orkuframleiðslu eru þeir stærstu sem Íslendingar hafa gert erlendis á sviði orkumála.
Þrjú verkefni í Eþíópíu mislangt komin
Að sögn Guðmundar eru verkefni félagsins í Eþíópíu þrjú og þau eru mislangt komin. „Það verkefni sem er lengst komið heitir Corbetti og er í stórri eldfjallaöskju.“ Það er 520 megavatta verkefni sem „er að komast yfir í borfasa núna. Við erum búnir að framkvæma allar yfirborðsrannsóknir og jarðeðlisfræðilegar rannsóknir sem hægt er að gera. Þar erum við byrjaðir að gera borplön og vegina og við erum að leggja vatnsveitu fyrir borana og þess háttar.“
Næsta verkefni félagsins er kallað Tule Moye. Það er í örðu eldfjallakerfi ekki langt fyrir utan höfuðborgina Addis Ababa. „Þar erum við nánast komnir jafnlangt. ... Þar er reiknað með að byrja að bora núna í haust.“
Guðmundur segir að bæði þessi verkefni séu komin með sameiginlegan orkusölusamning og samning við ríkisvaldið um hvernig sköttum og ábyrgðum er háttað. Hann segir ríkið þurfa að ábyrgjast orkufyrirtækið sem kaupir orkuna, því það sé í ríkiseigu.
Þriðja verkefni félagins í Eþíópíu er áætlað um 300 megavött og komið mun skemur á leið. „Þar erum við núna að gera yfirborðsrannsóknir, jarðeðlisfræðirannsóknir, umhverfismálin og það allt saman, en við erum ekki komnir með orkusölusamning eða ívilnunarsamning,“ segir Guðmundur.
Félagið Reykjavik Geothermal á um um 30% í Corbetti orkuverkefninu á móti 60% eignahlut sjóðs sem heitir African Renewable Energy Fund sem var upphaflega stofnaður af Afríska Þróunarbankanum, og Bresku þróunarstofnuninni InfraCo. Að auki á dótturfélag Jarðborana á Íslandi um 10%. Í Tule Moye verkefninu er Reykjavík Geothermal með 49% hluta á móti Meridiam sem er franskur fjárfestingarsjóður með 51%. „Þriðja verkefnið eigum við ennþá alveg sjálfir. Það er svona venjulegir gangur í þessu. Við byrjum á að koma verkefnunum á spöl, fyrstu rannsóknir, fyrstu samningar við ríkisstjórnina eða orkukaupendur, og svo þegar þar er komið leitum við að meðfjárfestum inn í verkefnin.
Gríðarleg tækifæri
Guðmundur segir tækifærin í orku Afríku veru gríðarmikil. Hann segir Eþíópíu hafa farið í gegnum mikinn hagvöxt síðustu áratugi. „Á síðustu 20 árum hefur efnahagskerfi Eþíópíu áttfaldast. Það er mikið um að vera í Eþíópíu og möguleikarnir óþrjótandi en staðreyndin er hins vegar sú að þeir eru ekki með nema 2,500 megavött af raforku uppsett, og svo eru þeir með annað eins í varaafli. Þegar þú ert með svona mikið varaafl þá segir það þér að það er ekki alltaf orku að hafa. Enda er það talið eitt helsta vandamál nýrra fyrirtækja og fyrirtækja í vexti í Eþíópíu er aðgangur að orku.“
Skapar störf á Íslandi
Aðspurður um hvort þessi risaverkefni félagsins í Afríku skapi störf á Íslandi segir Guðmundur að svo sé. „Þetta eru náttúrulega risavaxin verkefni. Hvort verkefni fyrir sig er rétt rúmlega tveggja milljarða bandaríkjadollara að stærð. Þannig að það er mjög stórt. Auðvitað hefur það áhrif á Íslandi. Það eru ekki bara við, sem erum ekki mjög stórir, heldur eru Jarðboranir að bora fyrir okkur í sumum verkefnunum, við erum með íslenskar verkfræðistofur sem eru svokallaðar „owners-engineer“ eða umsjónarverkfræðistofur verkefnanna fyrir okkur. Það eru íslenskar verkfræðistofur í nánast öllum okkar verkefnum. Við skiptum líka við endurskoðendur, lögfræðinga, o.s.frv. Þannig að er töluvert mikið af peningum sem renna til Íslands við þessa starfssemi,“ segir Guðmundur.