Hildur samdi tónlistina í chernobyl þáttunum – hvert einasta hljóð í tónlistinni frá upptökum í kjarnorkuveri

„Ég samdi tónlistina meðfram tökunum. Megnið af þáttaröðinni var skotin í Litháen í kjarnorkuveri sem er ekki lengur í notkun. Stuttu áður en þeir fóru þangað til að taka upp fór ég þangað til að taka upp hljóð. Ég fór þangað með tónlistarframleiðanda mínum og Chris Watson sem hljóðsetur allar myndir og þætti David Attenborough. Hann er sannkallaður meistara hljóðmaður þegar kemur að upptökum utan stúdíós. Það er svo mikil upplifun að bara hlusta með honum. Þannig að við fórum þarna inn í eiturefnabúningum til að taka upp hljóðin í kjarnorkuverinu. Við unnum svo að tónlist þáttanna út frá þessum upptökum þannig að hvert einasta hljóð í tónlistinni kemur frá þessum upptökum í kjarnorkuverinu.“

Þetta segir Hildur Guðnadóttir tónskáld í hlaðvarpsþættinum Score: The Podcast, sem fjallar um frumsamda tónlist leikins efnis. Hildur semur tónlistina í hinni geysivinsælu sjónvarpsþáttaröð HBO, Chernobyl. Þáttaröðin sannsögulega fjallar um hið alræmda Chernobyl stórslys  sem átti sér stað í Úkraínu árið 1986. Chernobyl  hefur hlotið einróma lof hvarvetna og er til að mynda komin í efsta sætið yfir vinsælustu sjónvarpsþætti allra tíma á kvikmyndavefnum IMDb, með einkunnina 9,7.

Aðspurð um í hverju það felist að tónlistin sé að öllu leyti unnin upp úr hljóðum kjarnorkuversins og hvort hún hafi sjálf kallað fram einhver hljóð eða bergmál segir Hildur:

„Ég var að fylgjast með kjarnorkuverinu. Ég vildi ekki spila á það sem slíkt. Ég vildi fara þarna og upplifa hvernig það væri að vera inni í kjarnorkuveri. Chernobyl er eitthvert stærsta stórslys ævi okkar og ekki bara ævi okkar, staðreyndum þess sem gerðist mun verða haldið á lofti löngu eftir okkar tíma. Þetta er svo flókin saga að segja og ég velti því fyrir mér hvernig sú saga hljómaði. Hvernig er líðanin þegar stórslys eru annars vegar og hvernig hljóma þau? Hvernig líður manni að vera í þeim aðstæðum?“

„Þetta eru aðstæður sem eru mér fullkomlega ókunnar, þannig að það að fara þarna inn og klæðast fötunum sem þetta fólk klæðist, finna allar lyktirnar, þessir löngu gangar sem halda áfram í marga kílómetra, konurnar sem eru endalaust að hreinsa gervallt kjarnorkuverið, það eru svo miklir litlir „núansar“ við að upplifa það að fara þarna, sem var svo áhugavert að skoða,“ bætir Hildur við, og segir ætlunina hafa verið að byggja karakter kjarnorkuversins, þ.e. skoða hvað felist í kjarnorkuveri í raun og veru og hvernig það hljómar.

Brot úr spjallinu við Hildi í Score: The Podcast er að finna hér: