Sigrún Magnúsdóttir, settur forsætisráðherra í málinu, hefur fallist á tillögu Minjastofnunar Íslands frá 24. september sl. um að friðlýsa í heild sinni hafnargarð sem þverar lóðina Austurbakka 2 í Reykjavík.
Settur forsætisráðherra hefur friðlýst mannvirkið í samræmi við tillögu Minjastofnunar Íslands, en mannvirkið nýtur þegar friðunar á grundvelli 4. mgr. 3. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012.
Forsætisráðuneytið mun á næstunni kalla saman hagsmunaaðila málsins til að kanna hvort ásættanleg lausn finnst í málinu, sem tryggir vernd þessara merku menningarminja en stuðlar jafnframt að því að byggingaráform á lóðinni nái fram að ganga í einhverri mynd.
Á umræddri lóð eru tvær minjar; annars vegar svokallað bólverk í suðausturenda lóðarinnar hlaðið árið 1876 og hins vegar umræddur hafnargarður hlaðinn árið 1913. Báðar minjarnar eru eldri en 100 ára og eru því friðaðar samkvæmt lögum. Enginn ágreiningur er um aldur bólverksins og því ekki þörf á sérstakri friðl ýsingu vegna þess.
Hafnargarðurinn var fluttur fram um sjö metra árið 1928. Sú tilhliðrun ein og sér er ekki talin breyta aldri garðsins, enda er um að ræða sama mannvirki.