Guðni th sagði sig úr kaþólsku kirkjunni

Fram hefur komið hjá ýmsum álitsgjöfum þjóðarinnar svo sem Agli Helgasyni að sá frambjóðandi sem e.t.v. gæti veitt Andra Snæ Magnússyni hvað mesta samkeppni í baráttunni um Bessastaði sé Guðni Th. Jóhannesson.

Lífsskoðanir forsetaframbjóðenda skipta máli þegar þjóðin kýs sér þjóðhöfðingja. Í facebook-færslu Guðna í gær kemur fram að hann hafi setið fund í gær með gömlum liðsmönnum í KFUM.

\"Skemmtilegum en annasömum degi að ljúka. Örlögin réðu því að hann hófst á skemmtilegu spjalli um andans mál og fleira hjá trúleysingjum tveimur í Harmageddon... Deginum lauk svo með erindi hjá gömlum liðsmönnum KFUM. Þar var líka gaman að vera. Ögrandi að nálgast lífsgátuna og fleira frá ólíkum sjónarhólum,\" skrifar sagnfræðidoktorinn Guðni Th. m.a. í facebook-færslu sinni.

Hringbraut  hafði samband við Guðna vegna skrifanna og spurði hann út í trú á Guð og aðild að trúfélögum.

 Trúir þú á Guð, Guðni  og ertu í þjóðkirkjunni?

\"Ég trúi á almætti, já, en stend utan trúfélaga, í góðri sátt við guð og menn.
 
Sumsé ekki í þjóðkirkjunni?
 
 \"Einmitt, utan allra trúfélaga. Var skírður til kaþólskrar trúar en sagði mig úr þeirri kirkju eftir fregnir af glæpum þjóna hennar og ómerkilegum tilraunum til að hylma yfir það framferði. Líður vel með mína barnatrú og mín trúarjátning er ekki lengur credo in unum deum heldur mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna: \"Hver maður er borinn frjáls, jafn öðrum að virðingu og réttindum. Menn eru gæddir vitsmunum og samvisku og ber þeim að breyta bróðurlega hver við annan.\"
 
Hvenær tekurðu ákvörðun um framboð?
 
\"Ég tek ákvörðun í næstu viku. Gerist auðveldara. Ótrúlegur stuðningur úr öllum áttum.\"