Fólk og samfélög í brennidepli á fundi norðurskautsráðsins - sex samtök frumbyggja á fundinum

Fulltrúar ríkjanna átta og sex samtaka frumbyggja sem aðild eiga að Norðurskautsráðinu hittust í fyrsta skipti í formennskutíð Íslands, auk fulltrúa vinnuhópanna sex og yfir þrjátíu áheyrnaraðila, á fundi embættismannanefndarinnar sem lauk í Hveragerði í dag. 

Yfir 120 fulltrúar komu saman í Hveragerði til að ræða núverandi og fyrirhugaða starfsemi ráðsins. Sérstök áhersla var lögð á verkefni sem tengjast Fólki og samfélögum á norðurslóðum sem er eitt þriggja forgangsmálefna á formennskutímabili Íslands, sem er frá 2019 til 2021

„Velferð þeirra um það bil fjögurra milljóna einstaklinga sem búa á norðurskautssvæðinu er lykilþáttur í starfi Norðurskautsráðsins sama hver gegnir formennsku. Við vildum nýta þennan fyrsta fullskipaða fund embættismannanefndarinnar á formennskutímabili okkar til að vekja athygli á þeim fjölbreyttu viðfangsefnum sem vinnuhóparnir eru að fást við og hafa áhrif á fólk og samfélög á norðurskautssvæðinu,“ sagði Einar Gunnarsson, formaður embættismannanefndarinnar.

Vinnuhóparnir sex vinna sem stendur að meira en fimmtíu verkefnum sem varða fólk og samfélög á norðurslóðum sérstaklega, og spanna verkefnin allt frá heilbrigði til efnahagslegra tækifæra, samfélagsþátttöku ungs fólk, áhrifa af loftslagsbreytingum og nýtingu á þekkingu frumbyggja og staðkunnugra. Þessi verkefni lágu til grundvallar sameiginlegum fundi vinnuhópa ráðsins og áheyrnaraðilanna sem haldinn var fyrir fund embættismannanefndarinnar.. Á sameiginlega fundinum voru kannaðir möguleikar á nánara samstarfi við áheyrnaraðila í ýmsum sérstökum verkefnum.

„Áheyrnaraðilarnir og vinnuhóparnir áttu árangursríkar viðræður um 19 mismunandi verkefni þar sem áheyrnaraðilarnir gátu spurt spurninga, sett fram athugasemdir, mælt með sérfræðingum og lýst yfir áhuga á hugsanlegri þátttöku í framtíðinni. Þessi fundur sýnir fram á mikilvægi þess að halda áfram uppbyggilegum skoðanaskiptum milli vinnuhópanna og áheyrnaraðilanna,“ sagði Stefán Skjaldarson, formaður vinnuhóps Norðurskautsráðsins um sjálfbæra þróun og stjórnandi fundarins með áheyrnaraðilunum.

Skýrsla Samaráðsins um leiðtogafund frumbyggja af norðurslóðum sem haldinn var í Rovaniemi í Finnlandi í síðustu viku var mikilvægt framlag til umræðunnar um fólk og samfélög á Norðurskautssvæðinu. Fundinn sóttu yfir 80 leiðtogar frumbyggja hvaðanæva að af norðurskautssvæðinu.

„Skýr skilaboð af fundi okkar í Roavvenjárga/Rovaniemi frá bæði leiðtogum og æskulýðsleiðtogum frá norðurslóðum voru að þekking frumbyggja er lykillinn að því að tryggja sjálfbæra þróun samfélaga þeirra á norðurslóðum. Efnahagsþróun getur ekki orðið á norðurslóðum án fullrar þátttöku frumbyggja, og þar eru tungumál þeirra mikilvæg uppspretta þekkingar,“ sagði Christina Henriksen, varaforseti Samaráðsins.

Önnur viðfangsefni sem rædd voru í Hveragerði voru vinna ráðsins að því að takast á við rusl og plast í sjó, hvernig embættismannanefndin geti betur  samræmt samstarf í málefnum hafsins á Norðurskautssvæðinu og hvernignúverandi samvinnu og framtíðarsamvinnu milli Norðurskautsráðsins og Efnahagsráðs norðurslóða sé best háttað. 

Að auki tilkynnti Einar Gunnarsson sendiherra fundargestum að Norðurskautsráðið myndi standa fyrir viðburði í tengslum við 25. aðildarríkjaráðstefnu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í Madrid á Spáni í desember. Viðburðurinn ber yfirskriftina „All Aboard! Tackling Polar Ocean Acidification“ og hefur að markmiði að  fræða gesti ráðstefnunnar og fjölmiðla um þá hættu sem súrnun sjávar hefur í för með sér fyrir vistkerfi á norðurslóðum og áhrif hennar á samfélög og hagkerfi. Næsti allsherjarfundur embættismannanefndar ráðsins verður á Akureyri 25.–26. mars 2020 og verður þar fjallað um málefni hafsins á norðurslóðum.

Norðurskautsráðið var stofnað árið 1996 og er í fararbroddi í samvinnu á norðurslóðum. Ráðið hefur frá stofnun þróast í að vera mikilvægasti vettvangurinn til að stuðla að jákvæðum áherslum og samræma sameiginlegar aðgerðir að því er varðar öll mikilvægustu málefni svæðisins. Norðurskautsráðið leggur áherslu á málefni sjálfbærrar þróunar og umhverfisverndar á norðurslóðum. Fundir embættismannanefndar ráðsins eru haldnir á u.þ.b. sex mánaða fresti og ráðherrafundir eru haldnir annað hvert ár. Ísland gegnir formennsku í Norðurskautsráðinu 2019-2021, en þá tekur Rússland við formennskunni.