"Fyrir rúmum tveimur vikum var ég keyrð með sjúkrabíl á spítala. Ég ætlaði nú bara að leggja mig og athuga hvort sviminn, höfuðverkurinn og skekkjan á vinstri hluta andlitsins myndi ekki bara jafna sig."
Svona byrjar ritstjórinn og þáttastjórnandinn Björk Eiðsdóttir nýjan pistil sinn á hringtbraut.is, en hún hefur verið frá vegna veikinda síðustu þrjár vikur - og hafa eldri þættir hennar af Kvennaráði fyrir vikið verið endursýndir síðastliðna föstudaga og eins raunar í kvöld, en Björk kemur svo til vinnu í næstu viku.
Í pistlinum segir hún reynslu sína af veikindum sínum yaf yfirvegun og æðruleysi. Hún segist fyrst hafa haldið að eitthvað slen væri komið yfir hana en eftir að hafa verið sannfærð af einkar ákveðnum vinkonum sínum og dóttur um að kíkja á læknavaktina hafi hún endað á sjúkrabörum og beint á sjúkrahús.
Grípum niður í pistil Bjarkar: "Til að gera langa sögu stutta kom í ljós að ég hafði orðið fyrir heilablæðingu við mænukylfuna (svokallað Wallenberg heilkenni). Hún er óútskýrð og ekkert sem ég gerði eða ekki gerði olli henni eða hefði komið í veg fyrir hana. Það var ekki streita, háþrýstingur eða neitt slíkt sem varð til þess að æðin rofnaði og hefði hún gert það þó ég væri barnlaus jógakennari í hamingjusömu hjónabandi sem drekkur grænt te og borðar hráfæði í hörfötum við lágstemmda slökunartónlist alla daga.
Verandi aftur á móti þriggja barna einstæð móðir sem rekur fyrirtæki, ritstýrir tímariti, stjórnar vikulegum sjónvarpsþætti og tekur virkan þátt í lífinu, virtist enginn (nema heilbrigðisstarfsfólk) efast um að ég hefði hreinlega keyrt mig út, unnið yfir mig... loks bugast af álaginu. Með fullri virðingu fyrir því að keyra þannig á vegg þá fór þessi „greining“ ekki vel í mig. Ekki síst vegna þess að sá grunur læðist sterklega að mér að karl í minni stöðu hefði ekki upplifað sömu viðbrögð . Hefði það verið það fyrsta sem fólki dytti í hug ef karlkyns yfirmaður á besta aldri og í fínu formi hefði lagst inn á spítala? Ég leyfi mér að segja nei. Sjálfri leið mér svolítið eins og fólk vildi bara að ég legði mig, slakaði aðeins á og breytti forgangsröðuninni."
Björk kemur nsem fyrr segir til starfa í næstu viku og hefst þá þegar við að undirbúa næsta þátt af Kvennaráðum og tímarit sitt, MAN.
Pistilinn má lesa í heild sinni á hringbraut.is.