Ólafur Jón Sívertsen lýsir áhyggjum sínum af þróun fjölmiðla á Íslandi í grein sinni á hringbraut.is. Hann segir: “Það er sama að gerast á Íslandi og hér í Svíþjóð varðandi fjölmiðlana. Margir af helstu fjölmiðlum Íslands eru komnir undir hælinn á peningaöflum og valdahópum sem tengdir eru stjórnmálaflokkum eða hagsmunahópum.”
Hann óttast að þessi þróun muni hafa slæm áhrif á lýðræðið. Bendir þó á að netið sé helsta von kjósenda því netmiðlar séu hraðvirkir og öflugir og þeir séu sem betur fer ekki allir í höndum sérhagsmunaaflanna.
Ólafur Jón gerir að umtalsefni það “dularfulla andrúmsloft\" sem ríkir í kringum DV og útgáfu allra Framsóknarmiðlanna sem Björn Ingi Hrafnsson hefur umsjón með. Ólafur telur útilokað að Björn Ingi hafi sjálfur komið með þá peninga inn í rekstur miðlanna sem til þarf. Hann segir að engum detti það í hug og spyr svo: “Hvaðan koma peningarnir” og freistar þess að svara svona:
“Þegar DV var keypt var sú útgáfa mjög illa sett fjárhagslega, skuldum vafin. Sama gildir um Vefpressu Björns Inga sem var með 80 m.kr. skuldahala vegna Eyjunnar og Pressunar. Auk þess er ljóst að núverandi útgáfa tapar milljónum í hverjum mánuði. Kunnáttumenn áætla að inn í þennan rekstur hljóti nú þegar að vera komnar 400 milljónir króna. Hér er um áætlun að ræða því Vefpressan hefur ekki skilað inn ársreikningum til Ríkisskattstjóra eins og krafist er.”
Ólafur Jón telur útilokað að útgáfan hafi fengið bankalán til að fjármagna þessar skuldir og viðvarandi taprekstur því enginn banki láni í svona taprekstur. Ólafur Jón telur sig hafa heimildir fyrir því að fjármunir til rekstrar allra þessara flokksmiðla Framsóknar komi frá nánustu ættingjum og vinum formanns flokksins. Hann bendir á að Gunnlaugur Sigmundsson, faðir Sigmundar Davíðs, sé sterkefnaður á íslenskan mælikvarða og ráði yfir milljörðum. Sama gildi um fleiri í nánasta umhverfi formannsins.
Niðurstaða Ólafs Jóns Sívertsen í greininni er sú að Gunnlaugur Sigmundsson sé svarið við ráðgátunni um fjármögnun Framsóknarmiðlanna.