Lektor í hagfræði við Háskólann á Akureyri segir efnahagslífið á suðvesturhorni landsins stjórni háum vöxtum á íslensku krónunni og ein afleiðingin sé sú að aldrei skapist þensla úti á landi.
Þessi skoðun lektorsins kemur fram í umræðum um byggðamál á þræði á facebook. Kveikja ummælanna er frétt þar sem haft er eftir hagfræðingi Landsbankans að nánast allr hagstæðari vaxtakjör myndu bjóðast með nánast öllum öðrum gjaldmiðlum en íslensku krónunni.
Jón Þorvaldur Heiðarsson lektor skrifa vegna þessa: „Hér með skora ég á allt landsbyggðafólk. Pælið í þessu frá ykkar hagsmunum. Það þarf háa vexti til að hemja þenslu og fjárfestingaræði. Það þarf lága vexti til að örva fjárfestingar. Það hefur ekki verið þensla í nokkurri landsbyggð svo heitið getur síðustu þrjá áratugi. Þurfum við því hávaxtamynt? Nei, öðru nær, við þurfum lága vexti.“
Hann heldur áfram: „Með lágum vöxtum verða ýmis verkefni gróðvænleg sem nú eru það ekki. Það yrði uppbygging og uppgangur í flestum landsbyggðum með lægri vöxtum. En vextir á krónunni, hvað stjórnar þeim? Efnahagslífið á suðvesturhorninu stjórnar þeim óháð okkar þörfum. Horfum kalt á þetta, hávaxtamynt skemmir fyrir okkur, lágvaxtamyntir myndu hjálpa okkur á landsbyggðunum. Íslenska krónan er því líklega einhver versti gjaldmiðill sem við gætum valið okkur kæra landsbyggðafólk.“
Lektorinn spyr einnig: „En hvernig stendur á því að við erum ekki fremst í víglínunni að krefjast annarrar myntar, líklega okkar mesta hagsmunamáls? Af hverju erum við tilbúin að fórna eigin samfélögum á altari íslensku krónunnar?“