Ótrúleg rörsýn sólveigar önnu

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, lét þau orð falla í útvarpsþætti að Ísland væri stéttlaust samfélag. Einn viðmælenda hennar þar var Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður stéttarfélagsins Eflingar (en það félag er eins og þeir vita sem fylgjast með fréttum undir fjarstýringu fyrrverandi auðmannsins sem svo söðlaði um og stofnaði Sósíalistaflokk Íslands).
 
Sólveig Anna sá ástæðu til að hnjóða í Guðrúnu fyrir að tala um Ísland sem stéttlaust samfélag og segir \" ... ótrúlegt að fullorðin manneskja væri að halda þessu fram. Af því að þetta er svo augljóslega ósatt.\"
 
Með þessum hvatskeytislega dómi sínum opinberar Sólveig Anna ótrúlega fáfræði sína og þekkingarleysi, jafnvel fordóma líka. Víðast hvar um heiminn er enginn vegur fær venjulegu almúgafólki til mennta, pólitískra áhrifa, efna eða frama af nokkru tagi. Þetta er hins vegar fært fólki úr öllum þjóðfélagshópum á Íslandi eins og allir ættu að vita. Þetta veit Guðrún Hafsteinsdóttir, enda sjálf upplifað á eigin skinni og sinnar fjölskyldu.
 
Hún stýrir, ásamt bróður sínum, stöndugu fjölskyldufyrirtæki sem faðir hennar stofnaði. Systir hennar er bæjarstjóri í Hveragerði og formaður samtaka íslenskra sveitarfélaga. Sjálf er Guðrún orðinn einn helsti áhrifamaður íslensks atvinnulífs. Þessi fjölskylda, Guðrún, systkini hennar og foreldrar eru íslenskt alþyðufólk sem brotist hefur til vegs og virðingar af eigin rammleik.
 
Það var mögulegt meðal annars vegna stéttleysis hins íslenska samfélags. Það er ótrúleg þröngsýni, rörsýni, hjá Sólveigu Önnu að afneita þessum mikilsverða eiginleika hins íslensa samfélags.