Engin gróðafíkn heldur frí gisting!

 

Ferðalangar víða um land lenda reglulega í því að veðurteppast yfir veturinn. Að jafnaði kostar slík reynsla tíma og útlát, pirringur getur fylgt með.

Ekki var það þó þannig í tilviki Svanhildar Daníelsdóttur kennara frá Akureyri, sem varð veðurteppt á Siglufirði. Virðist sem hið nýja hótel staðarins hafi sett ný viðmið í hvernig hægt er að snúa neikvæðri reynslu upp í ævintýri.

„Fyrirtæki ársins er Hótel Sigló og gæskuverðlaun ársins fær fólkið sem starfar þar. Margir tugir manna urðu veðurtepptir þar sl. sólarhring og gistu áfram í lúxusherbergjum og borðuðu morgunmat i morgun endurgjaldslaust. Einnig var mikill afsláttur af öðrum veitingum í gær. Er við komum út í morgun var búið að sópa og skafa bílana. Hvar annarsstaðar á Íslandi hafa menn fengið aðrar eins viðtökur?“

Þannig skrifar Svanhildur á facebook og er ekki að undra að athygli veki.

„Við heyrðum lika í manni sem fór í hið flotta bakarí Siglufjarðar, en þar er fínn salur með stórum skjá fyrir þá sem horfa á íþróttir. Ölið var á góðu verði og svo birtist allt i einu maður með smurt brauð á bakka og bauð viðstöddum. Gróðafíkn er eitthvað sem Siglfirðingar hafa ekki smitast af. Siglufjörður lengi lifi, takk fyrir okkur,“ skrifar Svanhildur.