Birgitta Jónsdóttir sem í lok apríl á síðasta ári lýsti því yfir að það væri léttir að hætta í Pírötum er genginn aftur til liðs við sína gömlu félaga. Þetta staðfestir hún í samtali við Hringbraut. Birgitta stefnir á að taka sæti í trúnaðarráði Pírata. Þá heldur Birgitta fram að mikil ólga sé innan flokksins.
„Það er alla vega ekki hægt að kenna mér um það að þessu sinni,“ segir Birgitta og hlær. Þá segir Birgitta að henni hafi aldrei tekist að segja sig alveg úr flokknum og hún hafi komist að því, að þrátt fyrir að hún hefði tilkynnt að hún væri hætt í Pírötum, var nafn hennar enn til staðar í kerfinu.
En hvernig er það tilkomið að Birgitta er aftur farinn að starfa fyrir flokkinn eftir að hafa sagt í viðtali við Fréttablaðið að „engum með fullu viti að fara út í stjórnmál í þessum tíðaranda sem er á Íslandi. Þetta er eins og að fá holdsveiki og allt í einu er maður bara fair game. Alveg sama hvað maður gerir. Maður gerir aldrei neitt rétt. Maður gerir aldrei neitt vel.“ Um viðsnúninginn og fyrirhugaða endurkomu segir Birgitta:
„Ég var tilnefnd í eitthvað sem heitir trúnaðarráð hjá Pírötum. Þannig að ég bauðst til þess að að taka það að mér eftir að hafa hitt framkvæmdaráð Pírata.“
Samkvæmt lögum Pírata er framkvæmdaráði falið að skipa í trúnaðarráð Pírata. Hlutverk trúnaðarráðs er að koma að sáttamiðlun og aðstoð þegar upp kemur ágreiningur eða annar vandi í samskiptum og starfi félagsmanna.
„Það hefur ekki verið fúnkerandi trúnaðarráð í nokkurn tíma hjá Pírtötum, sem er ekki gott,“ segir Birgitta og rifjar upp ólgu tíma þegar fyrrverandi formaður framkvæmdaráðs Pírata var sakaður um trúnaðarbrest. Í kjölfarið sagði hver Píratinn á fætur öðrum sig úr framkvæmdaráði flokksins. Birgitta kveðst lítið hafa verið inni í þessum málum:
„Ég fór úr öllum grúppum. Ég þurfti tíma til að jafna mig eftir þessa rosalegu vinnutörn sem ég var búin að vera í, ekki bara útaf Pírötum heldur líka öllu þessu stússi kringum Borgararhreyfinguna og svo því að búa til tvo flokka og koma þeim inn á þing á skömmum tíma.“
Birgitta bætir við að hún hafi verið uppgefin andlega og í kjölfarið engin afskipti haft af stjórnmálum.
„Ég hef ekkert verið að reyna stjórna bakvið tjöldin eins og fólk gerir oft. Ég bara fór út úr öllu,“ segir Birgitta en bætir svo við að eftir að hún hafi verið tilnefnd í trúnaðarráð hafi hún ákveðið að snúa aftur og taka þátt í pólitísku starfi.
Hver tilnefnir þig í trúnaðaráð?
„Ég bara veit það ekki,“ svarar Birgitta. „Ég hitti framkvæmdastjórn og vildi fá upplýsingar um hvað þetta væri mikil vinna og hvaða mál stæðu útaf. Þá skildist mér að ekkert hafi verið fúnkerandi síðan þessi lög voru sett sem Jón Þór bjó til. Þannig, hvort sem það er ég eða einhver annar, þá er alltaf nauðsynlegt að koma þessu á, því það eru vond að mál grassera inni í flokkum án þess að það sé tekið á þeim. Það er bara í hvaða félagsskap sem er,“ segir Birgitta.
„Ég er ekkert komin alveg á fullt. Ég tók eftir að það virðist enn þá vera töluverð ólga innan flokksins, það er alla vega ekki hægt að kenna mér um það að þessu sinni,“ segir Birgitta og hlær. Hún bætir við: „Ég hef ekki einu sinni verið að tala við fólk í flokknum. Ég kúpplaði mig alveg út.“
Þú ert að samt að setja fótinn inn fyrir dyrna hjá Pírötum, ekki satt?
„Eftir að ég sagðist að ég væri tilbúin að taka stöðuna að mér, en mér skilst að þetta sé staða sem tekin er fyrir á aðalfundi. Hann er í ágúst.“
Birgitta kveðst strax myndi vilja hefja störf hljóti hún kosningu. Birgitta birti einnig pistil í Stundinni í dag þar sem hún segir annað hrun í aðsigi. Segir Birgitta að ekki sé nóg að skipta bara um stjórnmálaflokka eða stjórnmálamenn. Það sé nauðsyn að huga að nýju kerfi, nýjum samfélagssáttmála. Þá segir Birgitta á öðrum stað að hana langi að segja svipaðan hlut og Jóhanna Sigurðardóttir sem mælti: „Minn tími mun koma.“
Í samtali við Hringbraut segir Birgitta að erfitt sé að virkja fólk á milli kosninga. Birgitta segir að lokum:
„Það er eitthvað sem mig dreymdi um svo að við myndum búa til sterka grasrót sem væri alveg á fullu, að gera hluti sem hugsanlega færu í framkvæmd, hvort það væri í landsmálum eða byggðarmálum.“