Ummæli þeirra sem halda því fram að frjálshyggjumennn séu ekki velkomnir í Pírata benda til þess að þeir hinir sömu séu á villigötum, enda stríða slíkar yfirlýsingar gegn samþykktum flokksins og stefnu.
Þetta sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata í svari við spurningu Elínar Hirst, þingmanns Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í gær.
Elín vildi vita hvort frjálshyggjufólk væri velkomið eða ekki í flokk Pírata. Ástæðu spurningarinnar sagði Elín ummæli Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata, á facebook fyrir skemmstu um að það hefði hjálpað henni við þá ákvörðun að bjóða sig fram til áframhaldandi þingstarfa að loknu þessu kjörtímabili hve frjálshyggjufélagar sæktu í að komast í flokkinn. Hafi Birgitta gefið í skyn að þeir gætu verið annars staðar. Elín tók fram að hún hefði viljað spyrja Birgittu sjálfa þessarar spurningar en Birgitta var lasin í gær og gat ekki mætt til þingstarfa. Því beindi Elín spurningu sinni að Helga Hrafni. Hún spurði hvaða skilaboð fælust í því samkvæmt ummælum Birgittu ef verið væri að afþakka stuðning fólks með frjálshyggjuskoðanir? Hvort frjálshyggjumenn yrðu útilokaðir frá flokkstarfi Pírata? Helgi Hrafn svaraði að allir væru velkomnir í Pírata svo framarlega sem þeir samþykktu grunnsamþykkir flokksins. Frjálshyggjumenn væru velkomnir eins og aðrir.
Fyrr í vikunni var tillögu Marðar Gunnarssonar um að Píratar segðu sig frá stjórnarskrárnefndinni hafnað á opnum fundi. Birgitta studdi tilögu Marðar. Helgi Hrafn var gegn henni. Um síðir var ákveðið að Píratar störfuðu áfram óbreytt í nefndinni.
Hringbraut spurði Birgittu í ljósi ólíkrar afstöðu hennar og Helga Hrafns eins og hann birtist í mismunandi stuðningi við mismunandi tillögur hvort skoðanaágreiningur væri meðal þeirra tveggja. Hún neitar því að öðru leyti en að mismunandi skoðanir séu uppi um aðferðafræði. Birgitta ánægð með að afgerandi stuðningur hafi komið fram við að píratar starfi áfram með stjórnarskránefndinni. Aðalheiður Ámundadóttir er fulltrúi þeirra þar. „Það er mikill misskilningur að það sé mitt hjartans mál að splundra þessari nefnd þótt ég hafi gagnrýnt hana.“ „Ég lít ekki svo á sem ég hafi tapað einverju máli þótt tillaga sem ég hafi stutt hafi ekki fengið framgang,“ segir Birgitta í samtali við Hringbraut.
Hvað varðar fyrirspurn Elínar Hirst og svar Helga Hrafns segir Birgitta að hún sé alls ekki gegn frjálslyndu fólki í flokknum. Viðbragð hennar megi fyrst og fremst rekja til þess að hún hafi óttast að tiltekinn hópur hygðist misnota sér aðstæður innan Pírata með því að ganga í flokkinn og reyna að hafa mikið um efnahagsstefnuna að segja, smíða hana í anda nýfrjálshyggju sem flestir Íslendingar hafni, eins og Birgitta orðar það.
Er þá enginn djúpstæður hugmyndafræðilegur ágreiningur milli ykkar Helga Hrafns?
„Nei, ég myndi ekki segja það sko. Upplifi það alls ekki þannig en kannski má segja að við höfum deilt um aðferðafræði og við höfum gert það á opnum vettvangi. Það er allt í lagi,“ svarar Birgitta Jónsdóttir, þingmaður þess flokks sem telur nú aðeins 3 þingmenn en er eigi að síður sá langvinsælasti skv. fylgiskönnunum, mælist með 34-38% stuðning.