Upp kom atvik á fundi Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var í dag til að ræða um þriðja orkupakkann. Fundurinn var haldinn í Salnum í Kópavogi. Frummælendur á fundinum voru Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og sitjandi dómsmálaráðherra.
Á myndbandi sem tekið var upp af atvikinu sést hvar tveir menn, merktir Sjálfstæðisflokknum með nafnspjöldum, koma að hælisleitandanum og segjast vera lögreglan. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, segir þeim ítrekað að setjast niður og sagði að þeir myndu ekki þurfa að hringja á lögregluna þar sem þessir menn væru lögreglan og benti á þá. „Við erum lögreglan, sestu niður“ sagði annar mannana við hælisleitandann.
Í samtali við Hringbraut segir Ármann að hann hafi bara tekið svona til orða.
Nú segir þú að þessir tveir menn séu lögreglan?
„Ég tók bara svona til orða að þeir væru lögreglan, þetta var bara sagt í hita leiksins. Þetta kom mér allt í opna skjöldu. Ég vissi ekkert hvaða fólk þetta var. Ef þú heldur að þeir hafi verið þarna af því við áttum von á einhverju, við vissum ekki neitt. Ég hélt að þetta væri Íslendingur. Það sem ég átti bara við var að þeir voru komnir á aldur og voru í lögreglunni. Mér varð strax brugðið þegar menn ætluðu að láta þennan fund fara að snúast um eitthvað annað.“
Eins og Ármann segir eru mennirnir tveir fyrrverandi lögreglumenn komnir á aldur og eru ekki starfandi lögreglumenn. Í lögum er það óheimilt að villa sér á heimildir og þykjast vera lögreglumaður.
Nú ert þú fundarstjóri og segir að það sé óþarfi að hringja á lögregluna því þeir séu lögregluþjónar?
„Já, ég gerði það. Það sem ég var að hugsa í þessu tilfelli var að þarna væru menn sem hafa unnið í lögreglunni.”
En það gerir þá ekki að lögreglumönnum er það?
„Nú kann ég það ekki, er lögregla bara lögregla ef hún er í búningnum og ekki á vakt, ég bara kann það ekki.“
En nú voru þetta ekki starfandi lögreglumenn er það?
„Nú þekki ég það ekki. Hvort þeir leysi af eða eitthvað svoleiðis. Ég bara gleymdi að segja fyrrverandi. Ég hefði átt að segja að þeir væru fyrrverandi lögreglumenn, það var bara klaufaskapur.“
Hér að neðan má sjá myndband af atvikinu: