Allt á suðupunkti: saka advania um að hefta tjáningarfrelsi og segja regnbogafána ósmekklega „hvað kom fyrir þig maður?“

Það vakti mikla athygli í dag þegar forstjóri Advania ákvað með sínu fólki að flagga regnbogafánum, fána mannréttinda og fjölbreytni, í tilefni þess að Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna var að funda í Höfða skammt frá. Varaforsetinn er afar umdeildur og þekktur fyrir fordóma í garð samkynhneigðra. Advania hefur fengið mikið hrós fyrir að mótmæla forsetanum með þessum hætti. Ekki eru þó allir jafn sáttir við stuðning Advania fyrir mannréttindum.

Jón Magnússon, hæstaréttarlögmaður, og fyrrverandi þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Frjálslynda flokkinn gagnrýnir Advania harðlega á Facebook-síðu sinni. Segir Jón að þetta hafi verið afar ósmekkleg ákvörðun. Undir þetta taka Gústaf Níelsson, Margrét Friðriksdóttir, Jón Valur Jensson, Gunnar í Krossinum og Ragnar Guðmundsson oft kenndur við Hótel Adam. Tæplega 150 manns lýsa einnig yfir ánægju með gagnrýni Jóns en Jón segir að Mike Pence hafi verið frábær fulltrúi bandarísku þjóðarinnar. Jón Magnússon segir:

„Mike Pence hefur sama rétt til að hafa skoðanir og félagar í samtökunum 78 og þessi þöggun og skoðanakúgun þeirra sem telja sig vera í réttindabaráttu er ógeðfelld.

Ég styð réttmætar kröfur samkynhneigðra til að hafa sama frelsi og réttindi og aðrir, en ég er á móti því að ráðist sé að fólki sem hefur aðrar skoðanir. Þetta var virkilega óprofessionalt hjá fyrirtækinu Advania og forstjóra þess.“

\"\"

Eins og kemur fram hér að ofan uppsker Jón ótal undirtektir við innleggi sínu. Þannig segir Ragnar kenndur við Hótel Adam: „Kinnvillingar eiga ekki að hafa forréttindi bara almenn mannréttindi.“ Þá stingur annar vina Jóns upp á því að hætt verði að versla við Advania.

Sigursteinn Másson fyrrverandi fjölmiðlamaður og fyrrverandi formaður Geðhjálpar sem nú starfar að dýraverndunarmálum hefur tekið til máls í þræðinum og svarað þeim sem gagnrýna fyrirtækið. Þannig spyr Sigursteinn hvort fólk vilji refsa og kúga Advania fyrir að lýsa skoðunum sínum. Þá beinir Sigursteinn orðum sínum til Jóns og segir:

„Regnbogafáninn er fáni mannréttinda og fjölbreytni um allan heim. Hvað kom fyrir þig maður?“ Þessu svarar Jón:

„Þeir eru að gera þetta til að mótmæla komu og tjáningarfrelsi varaforseta Bandaríkjanna. Það er það sem ég er að gagnrýna,“ segir Jón og bætir við á öðrum stað:

„Er það svo að fyrirtækið flaggi fána samkynhneigðra daglega eða er þetta sérstakt tilvik. Svarið er sérstakt tilvik vegna þess að það eru mótmæli við skoðanir varaforseta Bandaríkjanna. Þetta snýst um að reynt er að koma í veg fyrir tjáningarfrelsi þeirra sem taldir eru hafa óæskilegar skoðanir af forstjóra Advania og þeirra sem mótmæla komu varaforsetans á sömu forsendum.“

Þessu svarar Sigursteinn:

„Advania er að nýta tjáningarfrelsi sitt eins og Pence. Munurinn er sá að Pence vill bara mannréttindi fyrir suma, Advania hins vegar fyrir alla. Vel gert!“